Birgir Leifur er úr leik

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson.

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson er úr leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi sem fram fer á Spáni. Birgir lék fjórða hringinn í dag á pari og komst ekki í gegnum niðurskurðinn fyrir fimmta og sjötta keppnisdaginn.

Birgir Leifur fékk þrjá skolla og þrjá fugla á hringnum í dag og lék samtals á 72 höggum eða pari vallarins. Hann er samtals á fimm höggum yfir pari eftir fjóra hringi og kom í hús jafn fleiri kylfingum í 122. sæti, en efstu 75 kylfingarnir komast áfram og er það miðað við tvö högg undir pari.

Alls komast 25 efstu inn á Evrópumótaröðina. Þetta er í 11. sinn sem sjöfaldi Íslandsmeistarinn keppir á lokaúrtökumótinu. Birgir Leifur er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt í Evrópumótaröðinni. Hann gerði það árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert