Sögulega góður árangur

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Valdís Þóra Jónsdóttir, úr Leyni á Akranesi, náði í gær besta árangri sem Íslendingur hefur náð á stöku móti á Evrópumótaröðinni í golfi. Valdís hafnaði í 3. sæti á Sanya-mótinu sem fram fór á Hainan-eyju í Suður-Kínahafi.

Aðrir íslenskir kylfingar sem leikið hafa á þessari sömu mótaröð eru Ólöf María Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Hjá körlunum hefur Birgir Leifur Hafþórsson verið með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni og náð best 11. sæti. Björgvin Sigurbergsson, Heiðar Davíð Bragason, Axel Bóasson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson hafa leikið á stökum mótum. Ekkert þeirra hefur sem sagt komist í þrjú efstu sætin á móti á Evrópumótaröðinni eins og Valdís gerði nú.

Valdís lék hringina þrjá á 68,69 og 72 höggum og var samtals á sjö höggum undir pari vallarins á 54 holum. Valdís var nokkuð frá sigri í mótinu, en Celine Boutier frá Frakklandi sigraði á 12 undir pari. Valdís var hins vegar aðeins höggi frá öðru sætinu. Fær hún 18 þúsund evrur í verðlaunafé sem er um 2,3 milljónir íslenskra króna.

Með þessum árangri tókst Valdísi að tryggja sér áframhaldandi keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári. Þeir kylfingar sem ná að vera á meðal 80 efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins halda keppnisrétti sínum og er Valdís nú komin upp í 50. sæti listans. Er það vel af sér vikið hjá Valdísi þar sem hún hefur einungis tekið þátt í átta mótum á árinu. Hún var í 113. sæti á stigalista Evrópumótaraðarinnar fyrir mótið í Kína. Á hún eftir að taka þátt í einu móti til viðbótar á árinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert