Þekkja föðurinn sem afreksmann vegna Youtube

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Næstsigursælasti kylfingur allra tíma, Tiger Woods, þarf ekki að sanna fyrir heiminum að hann kunni sitt hvað fyrir sér í golfi en hann virðist nú vera kominn með hvatningu sem er ný af nálinni.

Eftir að hafa fjórtán sinnum fagnað sigrum á risamótum á árabilinu 1997-2008 þá hafa síðustu ár verið lituð af meiðslum hjá Woods sem er fertugur að aldri. Hefur hann farið í fjórar aðgerðir vegna bakmeiðsla og hafði áður farið í aðgerð vegna hnémeiðsla. Fer þeim fækkandi sem telja að Woods hafi líkamlega burði til þess að keppa við bestu kylfinga heims á nýjan leik eftir allt sem á undan er gengið.

Skemmtileg ummæli voru höfð eftir Woods í tímaritinu Gold Digest á dögunum. Hann benti á að börnin hans tvö væru 10 og 8 ára. Þau eiga því engar eða litlar minningar um föður sinn fara á kostum á golfvellinum. Síðast sigraði Woods á golfmóti árið 2013 og þá voru þau 6 og 4 ára.

„Ég held að börnin mín geri sér ekki grein fyrir því hvers ég er megnugur á golfvellinum því þau líta á mig sem Youtube-kylfinginn. Þau hafa í raun aldrei séð mig keppa þegar ég er upp á mitt besta,“ sagði Woods.

Þess má einnig geta að tveir af snjöllustu kylfingum Bandaríkjanna, Jordan Spieth og Justin Thomas, eru 24 ára. Þeir voru því lítið meira en unglingar þegar Woods sigraði síðast á risamóti. „Ég held að Jordan hafi enn verið með bleyju þegar ég byrjaði í atvinnumennskunni árið 1996,“ sagði Woods og bætti við: „Í fullkomnum heimi þá myndi ég leyfa þeim að finna hvernig mínum gömlu keppinautum leið þegar þeir tókust á við mig á golfvellinum á árum áður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert