Ólafía og Axel kylfingar ársins

Axel Bóasson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Axel Bóasson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Golfsamband Íslands hefur valið kylfinga ársins 2017. Þeir eru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Axel Bóasson (GK).

Ólafía Þórunn náði frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili á LPGA-mótaröðinni sem er sterkasta atvinnumótaröð heims. GR-ingurinn endaði í 74. sæti á stigalistanum með árangri sínum er hún í forgangi á öll mótin á LPGA-mótaröðinni á næsta tímabili.

Ólafía Þórunn lék á alls þremur risamótum af alls fimm. Hún er fyrsti íslenski kylfingurinn sem kemst inn á risamót í atvinnugolfi. Þar að auki var hún valin í úrvalslið LET-Evrópumótaraðarinnar á Drottningarmótinu í Japan. Hún er jafnframt fyrsti íslenski kylfingurinn sem er valin í slíkt úrvalslið atvinnukylfinga.

Alls lék Ólafía Þórunn á 26 mótum á LPGA. Besti árangur hennar á tímabilinu var 4. sæti Indy Women in Tech Championship í júlí. Ólafía náði 10. besta árangri tímabilsins af nýliðum á LPGA-mótaröðinni. Árangur Ólafíu á heimslista atvinnukylfinga er sá besti í sögunni hjá íslenskum kylfingi. Hún náði að komast í sæti nr. 179 og fór upp um 420 sæti á árinu og styrkti þar með stöðu sína verulega fyrir þátttöku á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan árið 2020.

Axel stigameistari á Nordic Tour

Axel Bóasson átti sitt besta tímabil frá upphafi á árinu 2017. Keilismaðurinn fagnaði sínum öðrum Íslandsmeistaratitli með eftirminnilegum hætti á heimavelli á Hvaleyrarvelli. Axel sigraði á tveimur mótum á Nordic Tour-atvinnumótaröðinni og er hann fyrsti íslenski kylfingurinn sem sigrar á þeirri mótaröð.

Þar að auki tryggði Axel sér stigameistaratitilinn á Nordic Tour-atvinnumótaröðinni og það var einnig í fyrsta sinn sem íslenskur kylfingur nær þeim árangri. Nordic Tour-atvinnumótaröðin er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Axel tryggði sér með árangri sínum á mótaröðinni keppnisrétt á næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu á næsta tímabili, Áskorendamótaröðinni (Challenge Tour).

Axel hefur farið hratt upp heimslistann á þessu ári og er hann efstur íslenskra karla á atvinnumannalistanum. Axel fór upp um rúmlega 1.400 sæti á heimslistanum og er í sæti nr. 449.

Sjötta sinn hjá Ólafíu

Þetta er í 20. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ. Þetta er í sjötta sinn sem Ólafía Þórunn fær þessa viðurkenningu en í fyrsta sinn sem Axel er efstur í þessu kjöri.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum, eða alls sex sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert