Valur í undanúrslit eftir sigur á Haukum

Elvar Friðriksson og félagar í Val eru komnir í undanúrslit …
Elvar Friðriksson og félagar í Val eru komnir í undanúrslit bikarsins. Ómar Óskarsson

Íslandsmeistarar Vals eru komnir í undanúrslitin í bikarkeppni karla í handknattleik eftir sigur á Haukum, 23:22, í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda í dag.

Haukar byrjuðu betur og voru yfir framan af fyrri hálfleik en Valsmenn voru sterkari seinni hlutann, sérstaklega eftir að Fannar Friðgeirsson kom inná og breytti sóknarleik þeirra til hins betra. Staðan í hálfleik var 12:11 fyrir Val.

Leikurinn var í járnum til leiksloka og einkenndist af góðum varnarleik og markvörslu, sérstaklega hjá Ólafi Gíslasyni í Valsmarkinu en hann varði 21 skot.

Halldór Ingólfsson minnkaði muninn fyrir Hauka í 22:21 úr vítakasti þegar hálf mínúta var eftir. Tíu sekúndum fyrir leikslok skoraði Ingvar Árnason fyrir Val, 23:21, og það réð úrslitum. Engu skipti þó Freyr Brynjarsson næði að skora fyrir Hauka, 23:22, í þann mund sem flautað var til leiksloka.

Ernir Hrafn Arnarson skoraði 6 mörk fyrir Val og þeir Sigfús Páll Sigfússon og Baldvin Þorsteinsson gerðu 5 mörk hvor. Arnar Jón Agnarsson skoraði 6 mörk fyrir Hauka og þeir Sigurbergur Sveinsson og Andri Stefan gerðu 4 mörk hvor.

Nánar um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert