Guðjón Valur: Batamerki á leik okkar

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Ómar Óskarsson

„Ég veit ekki hvort ég að hlægja eða gráta eftir þennan leika. Eftir að hafa spilað frábærlega í fyrri hálfleik þá duttum við alltof mikið niður í síðari hálfleik. Það hefði verið í lagi að missa forskotið niður í átta eða níu mörk en við gáfum alltof mikið eftir," sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik eftir sigurinn á Slóvökum, 28:22, í kvöld.

„Það var ekki hægt að fara fram á að við gætum leikið jafn vel í síðari hálfleik og við gerðum í fyrri hálfleik en það er óviðundandi hvað við duttum mikið niður. Það má ekki gerast."

Hreiðar frábær 

„Hreiðar var frábær í markinu og vörnin í heild var mjög góð og Slóvakar komust þá ekkert áleiðis gegn okkur í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn verður að vera öruggari hjá okkur. Undir lokin náðum við aðeins að ná vopnum okkar á nýjan leik og spila okkar leik og ljúka leikkerfunum en heild var síðari hálfleikur ekki nógu heilsteyptur sóknarlega.

Leikurinn við Frakka verður erfiður en við verðum að halda áfram að byggja ofan á það sem vel er gert. Vörnin og markvarslan er fín en sóknarleikurinn verður að batna. Hann er langt frá því að vera eins góður og hann hefur oft verið hjá okkur og alls ekki eins góður og við viljum hafa hann. Hraðaupphlaupin eru að koma betur og en uppstillta sóknin verður að að bæta. Meðan við vinnum þá er þetta kannski í lagi og það voru klár batamerki á leik okkar frá viðureigninni við Svía," sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði í fjarveru Ólafs Stefánssonar. Guðjón skoraði sjö mörk í leiknum, fimm hraðaupphlaupum og tvö úr vinstra horninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert