EM: Alfreð er hættur

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Alfreð Gíslason þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik tilkynnti á fundi með blaðamönnum nú rétt í þessu að hann væri hættur sem þjálfari liðsins.

„Ég ræddi við Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóra HSÍ fyrir mótið og tjáði honum að ég ætlaði mér að hætta eftir síðasta leikinn á EM,“  sagði Alfreð á fundinum. „Það fer mikill tími í það að vera þjálfari hjá landsliði og félagsliði og ég hef ekki nægan tíma til að sinna þessum verkefnum.“

Þrátt fyrir slakan árangur íslenska liðsins á EM sagði Alfreð að það væri bjart framundan hjá íslenska landsliðinu. Alfreð sagði að HSÍ myndi taka ákvörðun um hver yrði eftirmaður hans í starfinu.

Alfreð var ráðinn í starfið í byrjun mars árið 2006 og undir hans stjórn endaði liðið í 8. sæti á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi á síðasta ári.  

„Það eru margir ungir hæfileikaríkir þjálfarar á Íslandi. Ég nefni Aron Kristjánsson, Dag Sigurðsson, Júlíus Jónasson og Geir Sveinsson. Það þurfa allir sem koma að HSÍ að standa vel að málum í framtíðinni og hlúa vel að þessu liði,“  sagði Alfreð.

Alfreð sagði m.a. að margt hafi farið úrskeiðis á EM í Þrándheimi. Margir leikmenn voru ekki í nógu góðri leikæfingu fyrir mótið og það hafi sett undirbúning liðsins úr skorðum.  

„Okkar markmið var að komast í eitt af fjórum efstu sætunum. Ég sagði á þeim tíma að til þess þyrfti allt að ganga upp. Við höfum ekki náð að nota Jaliesky Garcia í þessari keppni, Ólafur Stefánsson er frá í tveimur leikjum vegna meiðsla, Einar Hólmgerisson er í engri leikæfingu og Logi Geirsson kom aðeins til baka undir lok keppninnar,“ sagði Alfreð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert