Siggi Sveins: Myndi þjálfa strákana frítt!

Sigurður Sveinsson hætti að leika handbolta 2003, 43 ára gamall.
Sigurður Sveinsson hætti að leika handbolta 2003, 43 ára gamall. Árvakur/Golli

Lítið gengur hjá HSÍ að ráða landsliðsþjálfara í handknattleik, en þeir Dagur Sigurðsson, Geir Sveinsson og Aron Kristjánsson hafa allir sagt nei takk. Sigurður Sveinsson segir málið storm í vatnsglasi, það sé nægur tími til stefnu.

Skilur orð Þorbergs vel

„Ég skil nú ekki þessi læti í kringum þetta. Ég get að vissu leyti tekið undir orð Þorbergs Aðalsteinssonar, því Dagur, Geir og Aron áttu auðvitað að tala fyrst við sín félög áður en þeir gáfu HSÍ undir fótinn. En það er nægur tími til stefnu. Liðið kemur aldrei saman fyrr en 10 dögum fyrir mót, sem er í maí, þannig að það þýðir ekki að vera með einhvern æðabunugang í þessu. Og hver sem þjálfarinn verður, getur maður nú gengið að því vísu að hann hafi eitthvert vit á þessu og þó svo menn séu allir með mismunandi áherslur, þá þyrfti viðkomandi varla langan tíma til að koma sér inn í íslenskan handknattleik. Þetta er búið að vera sami hópurinn nánast síðustu sex ár.“

Hví ekki að auglýsa starfið?

„Menn eru sífellt að velta fyrir sér hvaða nöfn eru eftir í pottinum, en ég skil ekki af hverju það má ekki auglýsa starfið laust. Þá sjáum við hverjir eru tilbúnir og getum valið úr. Ég tel þó að við þurfum metnaðarfullan einstakling sem tekur að sér 18 og 21 árs liðið einnig, fær vel borgað og fær langtímasamning, helst til fimm ára. Sjálfur vildi ég einhvern Norðurlandabúa með góðan íslenskan aðstoðarmann. Ég sá að Bogdan vinur minn bauð fram hjálp sína, en ég er nú ekkert sérstaklega spenntur fyrir honum, er hann ekki líka orðinn hundgamall?“ spyr Sigurður hlæjandi.

Hefur reynslu, ekki menntun

„Ég get alveg viðurkennt það að mig dauðlangar til að þjálfa þessa stráka. Ég myndi þjálfa þá frítt! Staðreyndin er því miður sú að eflaust hef ég ekki nægilega menntun. Ég hef þó sjö ára þjálfunarreynslu, en það er óvíst að hún dugi,“ sagði Sigurður að lokum.
Í hnotskurn
Lék með liðum í Svíþjóð, Þýskalandi og Spáni. Tók þátt í þremur HM með landsliðinu. Hefur þjálfað bæði HK og Fylki með ágætis árangri.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert