Frakkar sigruðu með þremur mörkum

Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Frakkar sigruðu Íslendinga, 31:28, í annarari umferð á alþjóðlega handknattleiksmótinu sem nú stendur yfir í Strasbourg í Frakklandi en leiknum lauk nú um sjöleytið.

Íslenska liðið var yfir framan af og komst í 7:5. Frakkar náðu forystunni á 13. mínútu í fyrsta sinn, 8:7, og voru síðan einu til tveimur mörkum yfir en jafnt var á öllum tölum á lokakafla fyrri hálfleiks. Ásgeir Örn Hallgrímsson jafnaði, 16:16, þegar 10 sekúndur voru eftir.

Frakkar voru með undirtökin í seinni hálfleik en íslenska liðið minnkaði muninn í 29:28 þegar enn voru nokkrar mínútur eftir. Það voru hinsvegar Frakkar sem skoruðu tvö síðustu mörkin og innbyrtu sigurinn.

Snorri Steinn Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu með 8 mörk. Hreiðar Levy Guðmundsson kom í markið eftir 20 mínútur og varði 11 skot, mörg þeirra úr dauðafærum. Björgvin Páll Gústavsson varði 3 skot á fyrstu 20 mínútunum, þar af eitt vítakast.

Spánn sigraði Egyptaland, 37:29, og er með 4 stig eins og Frakkland en liðin mætast í úrslitaleik mótsins á morgun. Ísland leikur gegn Egyptlandi um 3. sætið klukkan 12.30 en bæði liðin hafa tapað báðum sínum leikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert