Íslendingar töpuðu fyrir Egyptum

Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslendingar töpuðu fyrir Egyptum 30:33 í vináttulandsleik í handknattleik karla í dag. Leikurinn var sá síðasti hjá íslenska liðinu á fjögurra þjóða æfingamótinu í Frakklandi en liðið tapaði öllum leikjunum og hafnaði í neðsta sæti.

Snorri Steinn Guðjónsson er markahæstur með sex mörk þar af fimm úr vítaköstum og Logi Geirsson gerði fimm. Sverre Jakobsen stóð vaktina í vörn Íslands en óttast var að hann væri nefbrotinn eftir að hann fékk þungt högg á nefið í leiknum gegn Spánverjum á föstudaginn. Ísland tapaði þeim leik og tapaði einnig gegn Frökkum í gær. Birkir Ívar Guðmundsson hóf leikinn í marki Íslands og varði tvö skot. Björgvin Páll Gústavsson skipti við hann og varði átta skot, þar af tvö vítaköst. Egyptar höfðu yfir í leikhléi 18:14 og náðu átta marka forskoti um tíma í seinni hálfleik. Íslendingar söxuðu á forskotið á lokakaflanum en tókst aðeins að minnka muninn niður í tvö mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert