Þórir tryggði jafntefli gegn Þjóðverjum

Logi Geirsson gerði þrjú mörk fyrir Ísland gegn Þjóðverjum í …
Logi Geirsson gerði þrjú mörk fyrir Ísland gegn Þjóðverjum í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslenska landsliðið í handknattleik karla gerði jafntefli við það þýska, 33:33, í fyrri æfingaleik sem fram fór í Oberhausen í dag. Þórir Ólafsson gerði jöfnunarmarkið eftir hraðaupphlaup á lokaandartökum leiksins.

Ungu strákarnir í íslenska liðinu nýttu tækifærið vel til að sanna sig og gerðu þeir Rúnar Kárason og Aron Pálmarsson fjögur mörk hvor og Sigurbergur Sveinsson þrjú dýrmæt mörk á þeim stutta kafla sem hann spilaði í seinni hálfleik. Guðjón Valur Sigurðsson var þó markahæstur með 8 mörk, þar af þrjú úr vítum.

Alls fengu fjórtán íslenskir leikmenn að spreyta sig en aðeins þeir Sturla Ásgeirsson og Bjarni Fritzson voru á bekknum allan tímann.

Þetta var fyrri æfingaleikur þjóðanna af tveimur en sá seinni fer fram á morgun og hefst kl. 14:00.

Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is og fer textalýsingin hér á eftir:

15. mín. (9:5) Þjóðverjar byrjuðu leikinn betur og höfðu fjögurra marka forskot þegar um 15 mínútur voru liðnar af leiknum. Einar Hólmgeirsson gerði fyrstu tvö mörk Íslands og staðan var jöfn 2:2 en í kjölfarið náðu Þjóðverjar ágætri forystu.

Hálfleikur (16:15) Íslensku strákunum tókst að minnka muninn í eitt mark á lokamínútum fyrri hálfleiks þegar Aron Pálmarsson skoraði sitt annað mark í leiknum. Rúnar Kárason, sem einnig gerði tvö mörk í fyrri hálfleik, var svo nálægt því að jafna metin úr hraðaupphlaupi í lokin en Casten Lichtlein markvörður sá við honum.

Logi Geirsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Róbert Gunnarsson gerðu þrjú mörk hver fyrir Ísland í fyrri hálfleik og Einar Hólmgeirsson tvö. Þá varði Björgvin Páll Gústavsson sex skot. Hjá Þjóðverjum var Holger Glandorf markahæstur með fimm mörk í fyrri hálfleik.

45. mín. (25:23) Ísland komst yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 19:20 þegar Guðjón Valur skoraði laglegt mark úr nánast vonlausri stöðu. Það dugði þó skammt því Þjóðverjar gerðu næstu tvö mörk og komust svo í tveggja marka forystu um miðjan hálfleikinn.

Leik lokið (33:33) Lokamínútur leiksins voru spennuþrungnar en Þjóðverjar voru marki yfir og með boltann þegar um hálf mínúta var eftir. Logi Geirsson komst þá inn í sendingu og kom boltanum á Þóri Ólafsson sem skoraði örugglega úr góðu færi og tryggði Íslandi jafntefli.

Markaskorarar Íslands:

Guðjón Valur Sigurðsson 8, Rúnar Kárason 4, Aron Pálmarsson 4, Róbert Gunnarsson 4, Logi Geirsson 3, Þórir Ólafsson 3, Sigurbergur Sveinsson 3, Einar Hólmgeirsson 2, Vignir Svavarsson 1.

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 10, Hreiðar Guðmundsson 2.

Þjóðirnar áttust síðast við á Ólympíuleikunum í Peking nú í ágúst þar sem Ísland vann fimm marka sigur, 33:28, í riðlakeppninni.

Leikmannahópur íslenska liðsins:

Markverðir:

Björgvin Páll Gústavsson, Bittenfeld
Hreiðar Guðmundsson, Såvehof

Aðrir leikmenn:

Aron Pálmarsson, FH
Bjarni Fritzson, St. Raphael
Einar Hólmgeirsson, Grosswallstadt
Guðjón Valur Sigurðsson, Rhein Neckar Löwen
Ingimundur Ingimundarson, Minden
Logi Geirsson, Lemgo
Ragnar Óskarsson, Dunkerque
Róbert Gunnarsson, Gummersbach
Rúnar Kárason, Fram
Sigurbergur Sveinsson, Haukar
Sturla Ásgeirsson, Düsseldorf
Sverre Jakobsson, HK
Vignir Svavarsson, Lemgo
Þórir Ólafsson, Lüebecke









































































mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert