Noregur vann Þýskaland

Norðmenn unnu Þjóðverja á HM í handknattleik, 25:24.
Norðmenn unnu Þjóðverja á HM í handknattleik, 25:24. mbl.is/Brynjar Gauti

Norðmenn hleyptu öllu upp í milliriðli 2 á heimsmeistarakeppni karla í handknattleik sem fram fer í Króatíu, þegar Noregur vann ríkjandi heimsmeistara, Þýskaland, 25:24.

Lokaandartökin voru dramatísk en þá voru Norðmenn tveimur leikmönnum færri og Þjóðverjar unnu aukakast á eigin vallarhelmingi þegar um 10 sekúndur lifðu eftir af leiktímanum. Dómarar leiksins létu Þjóðverja hins vegar þrítaka aukakastið án þess að stöðva leiktímann og tókst Þýskalandi því ekki að jafna metin við lítinn fögnuð Heiner Brandt, þjálfara Þýskalands sem lét dómara leiksins heyra það eftir að leiktíminn fjaraði út.

Leikurinn var í járnum mest allan tímann og voru hálfleikstölur 12:12. Atkvæðamestir í liði Noregs voru Håvard Tvedten sem skoruði 8 mörk og Kristian Kjelling sem gerði 7 mörk. Hjá Þjóðverjum skoraði Holger Glandorf mest, 6 mörk.

Með sigri Norðmanna er hlaupin spenna í riðilinn. Áður en Danmörk og Makedónía mætast í síðasta leik dagsins í riðli 2 er staðan eftirfarandi:

Þýskaland 5 stig
Pólland 4 stig
Danmörk 4 stig
Noregur 4 stig
Serbía 3 stig
Makedónía 2 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert