Fjórir fengu rautt í ótrúlegum sigri Vals á Stjörnunni

Valsmenn komust á topp N1-deildarinnar í kvöld.
Valsmenn komust á topp N1-deildarinnar í kvöld. mbl.is/Eggert

Valur vann ótrúlegan baráttusigur á Stjörnunni, 25:24, í 15. umferð N1-deildar karla í handknattleik í kvöld. Stjarnan hafði forystuna nær allan seinni hálfleikinn en Sigfús Páll Sigfússon gerði sigurmarkið 40 sekúndum fyrir leikslok. Fjórir leikmenn fengu að líta rauða spjaldið.

Valsmenn eru því komnir á topp N1-deildarinnar en Stjarnan er áfram í næstneðsta sæti.

Mikill hiti var í leiknum og allt sauð upp úr á lokamínútunni. Þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum misstu Valsmenn boltann, en Ingvar Árnason kom í veg fyrir að Björgvin Hólmgeirsson næði til boltans. Það var Björgvin afar óánægður með og reif hann Ingvar niður. Báðir fengu í kjölfarið rautt spjald. Stjörnumönnum tókst svo ekki að nýta þær fáu sekúndur sem eftir voru af leiknum.

Mörk Vals: Sigurður Eggertsson 5, Arnór Þór Gunnarsson 5/3, Gunnar Harðarson 4, Hjalti Pálmason 3, Fannar Þór Friðgeirsson 3, Heimir Örn Árnason 2, Orri Freyr Gíslason 1, Sigfús Páll Sigfússon 1, Sigfús Sigurðsson 1.

Varin skot: Ólafur Haukur Gíslason 14, þar af 3 til mótherja, Ingvar Guðmundsson 1.

Mörk Stjörnunnar: Vilhjálmur Halldórsson 6, Fannar Örn Þorbjörnsson 5, Kristján Svan Kristjánsson 4, Guðmundur Guðmundsson 3, Björgvin Hólmgeirsson 3, Daníel Einarsson 2, Björn Friðriksson 1.

Varin skot: Gunnar Erlingsson 15, þar af 2 til mótherja.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið. Bein textalýsing var frá leiknum hér á mbl.is og hún fer hér á eftir:

58. Sigurður Eggertsson jafnaði metin fyrir Val, 24:24, með tveimur góðum mörkum í röð. Spennan er ótrúleg hér á Hlíðarenda.

55. Stjörnumenn hafa enn tveggja marka forskot, 21:23, þegar aðeins fimm mínútur lifa leiks. Verður Stjarnan fyrst liða til að leggja Val á Hlíðarenda á þessari leiktíð?

50. Valsmenn hafa nýtt tímann ágætlega manni fleiri og saxað á forskot Stjörnunnar sem er nú fjögur mörk, 17:21.

45. Stjörnumaðurinn Vilhjálmur Halldórsson fékk tveggja mínútna brottvísun en var allt annað en ánægður með það og ýtti við Arnóri Þór Gunnarssyni sem féll í gólfið með miklum tilþrifum. Vilhjálmur fékk fyrir vikið að líta rauða spjaldið og Stjarnan manni færri næstu fjórar mínúturnar.

40. Valsmenn virðast gjörsamlega ráðalausir gegn sterkri vörn Stjörnunnar hér í seinni hálfleiknum og hafa aðeins skorað eitt mark. Garðbæingar hafa náð sex marka forystu, 19:13, þegar tuttugu mínútur eru eftir af leiknum.

34. Valsmenn eru mjög óánægðir með rauða spjaldið sem Heimir fékk og á tímabili lá við að upp úr syði. Fannar Þór Friðgeirsson fékk svo tveggja mínútna brottvísun fyrir brot og Valsmenn voru því fjórir inná um tíma. 

33. Heimir Örn Árnason, leikstjórnandi Valsmanna, fékk að líta rauða spjaldið frá dómurum leiksins fyrir brot á Björgvini Hólmgeirssyni. Björgvin hóf sig til lofts til að skjóta á markið og Heimir gekk fullharkalega út í hann, sem olli því að Björgvin skall í gólfið. Nokkuð strangur dómur þó að því er virtist.

Hálfleikur. Stjarnan hefur eins marks forskot í hálfleik, 12:13, í leik þar sem liðin hafa skipst á að hafa forystuna. Munurinn var mestur þrjú mörk um miðbik hálfleiksins þegar Valur komst í 10:7 en Stjörnumenn skoruðu þrjú þau næstu. Markahæstir hjá Val í fyrri hálfleik voru Hjalti Pálmason og Fannar Þór Friðgeirsson með þrjú mörk en hjá Stjörnunni gerði Vilhjálmur Halldórsson fjögur mörk.

24. Kristján Svan Kristjánsson jafnaði metin fyrir Stjörnuna í 10:10 með laglegu marki úr vinstra horninu. Í kjölfarið tóku Valsmenn leikhlé.

19. Silfurdrengurinn Sigfús Sigurðsson kom Valsmönnum í 10:7 með marki úr hraðaupphlaupi en meiddist við það. Hann haltraði út af og liggur nú utan vallar þar sem hlúð er að honum.

17. Valsmenn náðu forystunni í fyrsta sinn þegar Hjalti Pálmason kom þeim í 7:6 eftir fimmtán mínútna leik. Liðin skoruðu svo sitt hvort markið áður en Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar ákvað að taka leikhlé.

5. Stjörnumenn mæta ákveðnir til leiks og ætla sér greinilega að stöðva sigurgöngu Valsmanna hér á Hlíðarenda, en hér hafa þeir ekki tapað á þessari leiktíð. Stjarnan hefur yfir eftir fimm mínútna leik, 2:3. Pálmar Pétursson markvörður er ekki á leikskýrslu hjá Valsmönnum vegna meiðsla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert