Stórleikur Florentinu gegn Val

Florentina Stanciu átti stórleik fyrir Stjörnuna í dag.
Florentina Stanciu átti stórleik fyrir Stjörnuna í dag. mbl.is/hag

Florentina Stanciu átti sannkallaðan stórleik í Mýrinni í Garðabæ í dag þegar Stjarnan vann Val, 24:21 í fyrsta leik undanúrslitaviðureigna liðanna á Íslandsmóti kvenna í handknattleik.

Varði Florentina 23 skot í marki Stjörnunnar, þar af tvö vítaköst, auk þess að skora sjálf eitt mark yfir allan leikvöllinn. Stjarnan leiðir því í einvígi liðanna, 1:0. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast í úrslitaviðureignir úrslitakeppni Íslandsmótsins. Næsti leikur Stjörnunnar og Vals fer fram í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda á þriðjudagskvöld.

Mörk Stjörnunnar: Alina Petrache 12/6, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 5, Sólveig Lára Kjærnested 3, Þorgerður Anna Atladóttir 2, Kristín Jóhanna Clausen 1, Florentina Stanciu 1.

Varin skot: Florentina Stanciu 23/2 (þar af 5 skot aftur til mótherja).

Mörk Vals: Hrafnhildur Skúladóttir 5/1, Ágústa Edda Björnsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 4, Dagný Skúladóttir 4, Íris Ásta Pétursdóttir 3, Drífa Skúladóttir 1.

Varin skot: Berglind Íris Hansdóttir 10.

LEIK LOKIÐ. Leiknum er lokið með sigri Stjörnunnar, 24:21. Frábær markvarsla Florentinu Stanciu lagði grunninn að sigri Garðabæjarliðsins.

60. Alina Petrache skoraði sitt tólfta mark fyrir Stjörnuna og tryggði sínu liði sigur 24:21.

59. Valur hefur komið til baka og minnkað muninn í tvö mörk, 23:21. Spenna á lokamínútunum.

57. Florentina Stanciu varði sitt 22. skot í leiknum þegar hún varði vítakast sem Dagný Skúladóttir tók fyrir Val. Staðan er nú 23:19 og heyrist eru Valsmenn orðnir pirraðir. Lætur Valsarinn Jóhannes Lange vel í sér heyra í stúkunni og sparar ekki stóru orðin. Stemning í því!

53. Alina Petrache skoraði sitt ellefta mark fyrir Stjörnuna og jók muninn aftur í fjögur mörk, 22:18.

52. Staðan í Garðabæ er 21:18 fyrir Stjörnuna og þulurinn í Mýrinni, Magnús Magnússon er í svakalegu stuði og heldur stemningunni gangandi.

48. Florentina Stanciu kórónaði leik sinn með því að skora mark yfir völlinn endilangann og varði svo sitt 20. skot í næstu sókn Vals á eftir. Staðan er nú 21:17 fyrir heimakonur í Garðabæ og Stefán Arnarson, þjálfari Vals tekur leikhlé.

46. Sólveig Lára Kjærnested skoraði sitt þriðja mark úr leiknum, úr hraðaupphlaupi eins og hin og kom Stjörnunni í 19:15.

45. Stjarnan komin í 18:15, Alina Petrache með 10 mörk og Florentina Stanciu með 18 varin skot fyrir Stjörnuna.

44. Alina Petrache skoraði enn eitt markið úr víti og jók muninn í tvö mörk fyrir Stjörnuna, 17:15.

40. Florentina Stanciu varði vítakast Ágústu Eddu Björnsdóttur úr Val í stöðunni 16:14. Drífa Skúladóttir náði hins vegar að skora í næstu sókn á eftir fyrir Val og minnka muninn í eitt mark, 16:15.

38. Staðan er 16:14 og er munurinn á liðunum markvarsla Florentinu Stanciu í marki Stjörnunnar. Hefur hún varið 13 skot í markinu það sem af er leik.

36. Gestunum gengur illa að stöðva Alinu Petrache, sem nú hefur skorað 8 mörk fyrir Stjörnuna sem hefur yfir 15:13.

34. Tvö Valsmörk á stuttum kafla og munurinn á liðunum nú aðeins eitt mark, 14:13.

33. Fyrirliði Stjörnunnar, Kristín Jóhanna Clausen er komin á blað eftir að hafa skorað mark úr hraðaupphlaupi, staðan 14:11 fyrir Garðabæjarkonur.

32. Stjarnan skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks. Þar var að verki Alina Petrache og kom liði sínu í 13:11. Florentina Stanciu hefur varið 11 skot í marki Stjörnunnar.

FYRRI HÁLFLEIK LOKIÐ. Stjarnan hefur yfir með einu marki í spennandi leik, 12:11 þegar flautað hefur verið til hálfleiks í Mýrinni. Sóknarleikur Stjörnunnar hefur verið ráðleysislegur, en það hefur þó ekki komið að sök eftir að vörn liðsins hrökk í gang með markvörðinn Florentinu Stanciu fremsta í flokki, þegar leið á fyrri hálfleikinn. Valsvörnin hefur einnig verið gríðarlega sterk í leiknum. Von á æsispennandi seinni hálfleik.

29. Þorgerður Anna Atladóttir eykur muninn í tvö mörk fyrir Stjörnuna með góðu marki úr gegnumbroti, 12:10

26. Atli Hilmarsson þjálfari Stjörnunnar tekur leikhlé í stöðunni 11:10.

25. Sólveig Lára Kjærnested er komin í gang og hefur nú skorað tvö mörk úr hraðaupphlaupum á stuttum kafla. Hin sterka varnarlína Stjörnunnar er nú einnig vöknuð til lífsins og vann svo boltann í næstu sókn Vals. Stjarnan er nú yfir, 11:10.

23. Valur hefur aftur náð forystunni, 9:10 er staðan eftir mörk Dagnýjar Skúladóttur og Hildigunnar Einarsdóttir hjá Val og mark frá Hörpu Sif Eyjólfsdóttur fyrir Stjörnuna.

22. Þá standa leikar jafnir, því Alina Petrache skoraði sitt fjórða mark úr víti í leiknum og jafnaði 8:8. Hefur Alina nú skorað 6 mörk í allt.

19. Fimmta mark Alinu Petrache fyrir Stjörnuna og munurinn á liðunum nú aðeins eitt mark, 7:8.

18. Stjarnan sækir aðeins á og hefur minnkað muninn í tvö mörk, 6:8 eftir að Alina Petrache skoraði sitt fjórða mark í leiknum fyrir Garðabæjarliðið.

17. Hildigunnur Einarsdóttir skoraði fyrir Val og Harpa Sif Eyjólfsdóttir fyrir Stjörnuna, þannig að núna er staðan 5:8.

15. Staðan er 4:7 fyrir Val. Hrafnhildur Skúladóttir er markahæst Valskvenna með 4 mörk.

12. Systurnar Hrafnhildur og Dagný Skúladóttir hafa skorað sitt markið hvor fyrir Val núna og aukið muninn í þrjú mörk, 3:6 er staðan. Stjarnan fékk raunar vítakast sem Elísabet Gunnarsdóttir tók, en Berglind Íris Hansdóttir í marki Vals varði það vel.

10. Alina Petrache skoraði úr vítakasti fyrir Stjörnuna og minnkaði muninn í 3:4. Svo ánægður var þulurinn í húsinu með markið að hann sagði hátt og skýrt í hljóðkerfið að Florentina Stanciu, sem er markvörður Stjörnunnar hefði skorað. Uppskar hann mikinn hlátur áhorfenda.

8. Þrumuskot hjá Hrafnhildi Skúladóttur fyrir utan punktateig, sláin og inn og staðan 2:4 fyrir Valskonur sem spila öflugan varnarleik þessar fyrstu mínútur leiksins. Gengur Stjörnunni illa að komst í gegnum varnarmúr Valskvenna.

6. Ágústa Edda Björnsdóttir skoraði mark fyrir Val eftir gott gegnumbrot, staðan 2:3 fyrir gestina frá Hlíðarenda.

4. Eftir langa Stjörnusókn tókst Alinu Petrache að lokum að skora gott mark og jafna, 2:2.

3. Hrafnhildur Skúladóttir kom Val yfir á nýjan leik, 1:2.

2. Íris Ásta Pétursdóttir kom Valskonum yfir en Stjarnan svaraði með marki strax í næstu sókn á eftir. Þar var að verki Harpa Sif Eyjólfsdóttir.

0. Dómarar leiksins eru þeir Helgi Rafn Hallsson og Sigurjón Þórðarson.

0. Liðin hafa mæst fjórum sinnum í vetur og hafði Stjarnan betur í þremur af þeim leikjum. Vann Stjarnan leiki liðanna í deildinni 22:19 og 23:17 í fyrstu tveimur umferðum deildakeppninnar en Valur vann leik liðanna í þriðju umferðinni, 29:27. Þá vann Stjarnan leik liðanna þegar þau mættust í 8-liða úrslitum Eimskipsbikarkeppninnar, 28:23.

0. Stjarnan endaði í 2. sæti í N1 deildinni með 36 stig, tveimur stigum á eftir deildarmeisturum Hauka. Valskonur höfnuðu í 3. sæti með 31 stig.

Hrafnhildur Skúladóttir stórskytta Vals.
Hrafnhildur Skúladóttir stórskytta Vals. mbl.is/Golli
Hildigunnur Einarsdóttir, Valur. Sólveig Lára Kjærnested, Stjarnan.
Hildigunnur Einarsdóttir, Valur. Sólveig Lára Kjærnested, Stjarnan. mbl.is/Ómar
Alina Petrache hjá Stjörnunni er í stuði í dag.
Alina Petrache hjá Stjörnunni er í stuði í dag. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert