Fimm marka sigur Hauka

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, stýrir liði sínu að vanda í …
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, stýrir liði sínu að vanda í kvöld gegn Fram. hag / Haraldur Guðjónsson

Haukar unnu fimm marka sigur á Fram, 30:25, í N1-deild karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Íslandsmeistararnir halda því áfram efsta sæti deildarinnar með 16 stig að loknum 10 leikjum. Fram situr sem fyrr á botninum með aðeins tvö stig. Haukar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 16:14.

Haukar náðu að losa sig við Framara á síðustu mínútum leiksins en lítill glæsibragur var á leik meistaranna þrátt fyrir sigurinn. Þegar fjórar mínútur voru til leiksloka var aðeins tveggja marka munur á liðunum, 26:24, og Fram átti sókn. Hún rann út í sandinn og þar með misstu Framarar móðinn.

Fylgst var með leiknum í textalýsingu sem reglulega var uppfærð á mbl.is.

Mörk Hauka: Guðmundur Árni Ólafsson 8, Sigurbergur Sveinsson 7/2, Elías Már Halldórsson 4, Björgvin Hólmgeirsson 3, Freyr Brynjarsson 2,  Heimir Óli Heimisson 2, Pétur Pálsson 1, Gísli Jón Þórisson 1, Þórður Rafn Guðmundsson 1, Jónatan Ingi Jónsson 1.
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 22 (þaraf 5 til mótherja).
Utan vallar: 4 mínútur.
Mörk Fram: Halldór Jóhann Sigfússon 7/5, Einar Rafn Eiðsson 6, Haraldur Þorvarðarson 5, Daníel Berg Grétarsson 3, Guðjón Finnur Drengsson 1, Andri Berg Haraldsson 1, Róbert Aron Hostert 1, Hákon Stefánsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 18/1 (þaraf 5/1 aftur til mótherja).
Utan vallar: 14 mínútur.

50. Leikurinn hefur verið slakur á báða bóga. Haukar virðast þó heldur lánsamari ef eitthvað er og hafa þriggja marka forskot, 25:22.

40. Sóknarleikur Hauka hefur verið kæruleysislegur það sem af er síðari hálfleik. Það hafa Framarar nýtt sér og náð að jafna metin, 19:19.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Haukar eru tveimur mörkum yfir, 16:14. Fram byrjaði betur en tókst ekki að fylgja því eftir. Sóknarleikur liðsins hefur verið nokkuð fyrirséður auk þess sem Birkir Ívar Guðmundsson hefur varið vel í marki Hauka, 10 skot. Haukaliðið hefur skorað mikið eftir hraðaupphlaup. Sigurbergur Sveinsson er markahæstur hjá Haukum með 5 mörk og Guðmundur Árni Ólafsson hefur skorað þrjú mörk.
Hjá Fram er Halldór Jóhann Sigfússon markahæstur með 4 mörk. Einar Rafn Eiðsson og Haraldur Þorvarðarson hafa skorað í þrígang hvor.

20. Haukar hafa heldur betur snúið leiknum sér í vil síðustu mínútur og breytt stöðunni úr 7:3, Fram í vil í 12:8, sér í hag. Haukar hafa aðeins bætt vörn sína og fengið hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru.

10. Framarar eru mikið ákveðnari á upphafsmínútum leiksins. Sóknar- jafnt sem varnarleikur Hauka er alls ekki upp á marga fiskana, staðan 5:2, Fram í vil.

Dómarar: Hafsteinn Ingibergsson og Gísli H. Jóhannsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert