Stórslagur í Hafnarfirði í kvöld

Pétur Pálsson línumaður Hauka reynir að komast framhjá Sigurgeiri Árna …
Pétur Pálsson línumaður Hauka reynir að komast framhjá Sigurgeiri Árna Ægissyni, FH-ingi, í viðureign liðanna fyrr í vetur. Ómar Óskarsson

„Viðureignir FH og Hauka eru hverju sinni krydd í tilveruna í íslenskum handknattleik. Áhorfendur fjölmenna og leikirnir eru jafnir og spennandi. Á þessu verður engin breyting í kvöld en það er alveg ljóst við Haukamenn ætlum okkur að vinna," segir Aron Kristjánsson, þjálfari Íslandsmeistara Hauka, um Hafnarfjarðarslaginn á mill  FH og Hauka í N1-deild karla í handknattleik sem fram er í Kaplakrika í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Leikurinn í Hafnarfirði er einn fjögurra leikja sem er á dagskrá í deildinni í kvöld. Klukkan 19 taka Akureyringar á móti Gróttu í íþróttahöllinni á Akureyri. Hálftíma síðar hefjast síðan viðureignir FH og Hauka í Kaplakrika, Vals og Stjörnunnar á heimavelli Vals og leikur HK og Fram í Digranesi. 

Haukar eru efstir í deildinni með 16 stig að loknum 10 leikjum. FH og Valur koma næst í öðru og þriðja sæti með 13 stig. Þá kemur Akureyri með 11 stig eftir 10 leiki og HK með 11 stig að loknum 9 leikjum. Grótta hefur 8 stig, Stjarnan 4 og Fram rekur lestina með 2 stig. HK er eina liðið sem Fram hefur unnið í deildinni í vetur.

FH og Haukar hafa leitt saman hesta sína tvisvar sinnum á keppnistímabilinu. Haukar hafa unnið báða leikina, 29:26, í deildinni á Ásvöllum og 38:37, eftir tvíframlengdan leik í Eimskipsbikarnum.

„Við fengum að bragða á því á síðustu leiktíð hversu vont það er að tapa fyrir FH og höfum ekki áhuga á að reyna það aftur," segir Aron í léttum dúr spurður út í fyrri leiki leiki liðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert