Hefnir Fram eða fer FH í Höllina annað árið í röð?

Fram hefur þegar unnið titil í vetur en hér fagnar …
Fram hefur þegar unnið titil í vetur en hér fagnar liðið sigri í deildabikarnum. mbl.is/Ómar

Fyrri undanúrslitaleikur bikarkeppni kvenna í handknattleik, Eimskipsbikarnum, fer fram í kvöld þegar FH og Fram leiða saman hesta sína í Kaplakrika. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Hin undanúrslitaviðureignin verður á milli Vals og bikarmeistara Stjörnunnar og fer hún fram á sunnudaginn. Úrslitaleikurinn fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 27. febrúar.

FH lék til úrslita í bikarkeppninni á síðustu leiktíð við Stjörnuna en laut í lægra haldi. FH náði hins vegar að skella Fram í 8-liða úrslitum, 29:27, í viðureign sem fram fór í Kaplakrika. Fyrir það tap vilja leikmenn Fram örugglega hefna í kvöld en að sama skapi langar FH-liðið örugglega í Laugardalshöllina annað árið í röð undir stjórn hins þrautreynda þjálfara Guðmundar Karlssonar.

Fram er sigursælasta félag landsins í bikarkeppni kvenna frá því að fyrst var leikið árið 1976. Alls hefur Fram tólf sinnum unnið bikarinn, síðast árið 1999.

FH hefur hins vegar aðeins einu sinni orðið bikarmeistari kvenna. Síðan eru liðin 29 ár.

Lið FH situr nú í 5. sæti N1-deildar með 14 stig eftir 16 leiki. Fram er hins vegar í öðru sæti deildarinnar með 27 stig eftir 16 leiki, þremur stigum á eftir ósigruðu toppliði Vals. En eins og þegar liðin mættust í bikarkeppninni í fyrra þá hefur staðan í deildinni lítið að segja í bikarkeppninni. iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert