Björgvin tryggði Haukum ævintýralegan sigur

Sigurður Eggertsson, leikmaður Vals, reynir að fara á milli Einars …
Sigurður Eggertsson, leikmaður Vals, reynir að fara á milli Einars Arnar Jónssonar og Björgvins Þór Hólmgeirssonar í leiknum á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Björgvin Þór Hólmgeirsson tryggði Haukum eins marks sigur, 23:22, á Val með marki fjórum sekúndum fyrir leikslok í fyrsta úrslitaleik Hauka og Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla á Ásvöllum í kvöld. Haukar voru undir lengst af leiknum en þeir skoruðu tvö síðustu mörkin í miklum spennuleik og fyrsta vinninginn í einvíginu.

Liðin eigast við að nýju á heimavelli Vals á sunnudaginn klukkan 16.

Þegar Björgvin kom Haukum yfir, 23:22, í lokin náðu Hauka yfirhöndinni í leiknum í fyrsta sinn síðan í stöðunni 2:1.

Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 7/4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 6, Pétur Pálsson 5, Einar Örn Jónsson 2, Elías Már Halldórsson 2, Stefán Rafn Sigurmannsson 1.
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 14 (þaraf 3 til mótherja).
Utan vallar: 6 mínútur.
Mörk Vals: Arnór Þór Gunnarsson 7/3, Fannar Þór Friðgeirsson 7, Sigurður Eggertsson 3, Baldvin Þorsteinsson 2, Jón Björgvin Pétursson 2, Ingvar Árnason 1.
Varin skot: Hlynur Morthens 13 (þar af 5 til mótherja).
Utan vallar: 4 mínútur.

59,43 Haukar taka leikhlé en þeir eru með boltann eftir að Birkir Ívar varði skot Fannars Friðgeirssonar 27 sekúndum fyrir leikslok. Staðan er jöfn, 22:22.

59. Pétur Pálsson jafnar fyrir Hauka, 22:22, af línunni. Valsmenn í sókn en taka leikhlé, 48 sekúndur eftir.

57.30. Haukar í sókn og er marki undir, 21:20. Björgvin Þór jafnar metin, 21:21, og tvær mínútur eftir. Rífandi  stemning í h´suinu.

57. Haukar í sókn og Einar Örn fer inn úr hægra horninu en skot hans fer í andlit Hlyns Morthens, markvarðar Vals. Haukar halda boltanum og Hlynur er nú staðinn upp. Staðan er 21:19 fyrir Val.

56. Illa ígrundað skot Arnór Þórs Gunnarssonar fer yfir mark Hauka sem eiga sókn og geta minnkað muninn í eitt mark.

52. Staðan 20:18 fyrir Val. Haukar voru í sókn en Baldvin Þorsteinsson vann boltann fór í hraðaupphlaup en Birkir Ívar varði í marki Hauka. Haukar fóru upp á ný en köstuðu boltanum út af. Valsmmenn í sókn og Fannar Friðgeirsson skoraði sitt sjöunda mark og 21. mark Vals sem nú hafa þriggja marka forskot. Skot Hauka í sókn í kjölfarið fór í markslána.

50. Staðan 19:17, Val í vil og Haukar eiga boltann eftir að skot Fannars Friðgeirssonar fór í stöng Haukamarksins.

45. Ingvar Árnason var að skora 17. mark Vals. Staðan er 17:14, Val í vil.

44. Einar Örn Jónsson var að skora fjórtánda mark Hauka, staðan nú 16:14, Val í vil sem ekki hafa skorað nema eitt mark á síðustu sjö mínútum. Haukar eru ákveðnari í vörninni og Birkir Ívar hefur varið vel síðustu mínútur. Freyr Brynjarsson var að fá sína þriðju brottvísun í liði Hauka.

37. Valsmenn hafa nú skorað tvö mörk í röð eru komnir með fjögurra marka forskot og eru auk þess í sókn.  Staðan er 15:11. Aron Kristjánsson, þjálfari Vals, var að fá gult spjald.

35. Haukar fara betur af stað í síðari hálfleik en Valsmenn. Sóknarleikur Valsmanna hefur verið tilviljanakenndur. Staðan er 13:11, fyrir Val en Haukar hafa skorað tvö síðustu mörk leiksins.

31. Sigurður Eggertsson skorar fyrsta mark síðari hálfleiks úr fyrstu sókn Valsmanna, 12:8. Haukar fara í sókn.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Valsmenn er með verðskuldaða þriggja marka forystu, 11:8. Þeir hafa einfaldlega verið betri í fyrri hálfleik.  Sigurbergur Sveinsson og Björgvin Þór Hólmgeirsson eru markahæstir hjá Haukum með þrjú mörk hvor. Birkir Ívar Guðmundsson hefur varið sjö skot í markinu.
Hjá Val er Arnór Þór Gunnarsson markahæstur með 5 mörk. Hlynur Morthens hefur varið 9 skot í mark Valsmanna.

29. Sigurbergur Sveinsson skorar úr vítakasti fyrir Hauka, hans annað mark í leiknum. Staðan er 9:7, Val í hag.

26. Valsmenn taka leikhlé. Staðan er 9:6 fyrir þá en Haukar hafa skorað tvö síðustu mörk leiksins.

23. Valsmenn eru komnir með fimm marka forskot, 9:4, og stuðningsmenn Hauka sitja þrumu losnir á áhorfendapöllunum. Meira fjör er á meðal Valsmann  en þeir eru óvenjumargir á þessu leik. Ætli að það séu ekki um 1.200 áhorfendur á að giska hér í kvöld.

20. Enn ein sókn Hauka rennur út í sandinn og Arnór Þór Gunnarsson skorar sjöunda mark Vals í framhaldinu, staðan er 7:4, fyrir Val. Vél meistarana hikstar heldur betur.

19. Björgvin Þór minnkar muninn í eitt mark eftir gegnumbrot, flott mark, staðan er 5:4, fyrir Val. Baldvin Þorsteinsson eykur muninn á nýjan leik fyrir Val með marki úr vinstra horninu, staðan er 6:4, fyrir Val.

18. Haukar taka leikhlé. Aron Kristjánsson, þjálfari, fer yfir stöðu mála með lærisveinum sínum. Sóknarleikur þeirra hefur ekki verið burðugur það sem af er. Staðan er enn 5:3, fyrir Val.

16. Björgvin  Þór Hólmgeirsson skoraði þriðja mark Hauka með undirhandarskoti, staðan 5:3, Val í vil.

14. Freyr Brynjarsson  var að fara öðru sinni af leikvelli. Fannar Þór Friðgeirsson kom Val í 5:2 í framhaldinu. Haukar eru í slæmum málum.

12. Arnór Þór Gunnarsson kemur Val í 4:2 úr vítakasti. Sóknarleikur Hauka er slakur á upphafsmínútunum gegn hreyfanlegri 3/3 vörn Vals þar sem barkverðirnir koma vel út á móti skyttum Hauka.

9. Arnór Þór Gunnarsson var að koma Val yfir, 3:2, með marki úr vítakasti.

7. Valsmenn láta það ekki á sig fá að vera manni færri eftir að Orra Frey Gíslasyni var vísað af leikvelli. Þeir hafa jafnað metin, 2:2, og áttu möguleika á að komast yfir en Birkir Ívar Guðmundsson varði skot Sigurðar Eggertssonar úr hraðaupphlauppi.

4. Sigurbergur Sveinsson skorar fyrsta mark leiksins með langskoti og Elías Már Halldórsson bætir öðru við fyrir Hauka eftir hraðaupphlaup.  Valsmenn hefja sókn og Frey Brynjarssyni, leikmanni Hauka, er fljótlega vísað af leikvelli í tvær mínútur. Valsmenn kastað boltanum yfir mark Hauka í framhaldinu.

2. Hlynur Morthens fer á kostum á upphafsmínútum leiksins. Fyrst varði hann langskot frá Haukum og síðan hraðaupphlaup þeirra skömmu síðar. Tvær fyrstu sóknir Vals renna einnig út í sandinn.

1. Leikurinn var að hefjast, sjö mínútum á eftir áætlun. Eftir aðeins hálfa mínútu þá liggur Sigurbergur Sveinsson leikmaður Hauka á vellinum eftir  viðskipti við varnarmenn Vals. Þetta virðist sem betur fer ekki vera alvarlegt og Sigurbergur er staðinn upp og leikurinn hefst á nýjan leik.

Enn og aftur er ljóst að ekki er hægt að hefja handboltaleiki á Íslandi á tilsettum tíma. Nú er klukkan tvær mínútur yfir átta og enn að minnsta kosti fimm mínútur þar til leikurinn hefst. Það á alveg eftir að kynna leikmenn Hauka til sögunnar.

Dómarar leiksins verða Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Eftirlitsmaður er Ólafur Haraldsson, fyrrverandi alþjóða dómari.

Haukar og Valur mættust einnig í úrslitum á síðasta ári. Þá unnu Haukar þrjár viðureignir en Valur eina. Haukar fögnuðu þá Íslandsmeistaratitli annað árið í röð. Þá eins og nú var fyrsti leikur liðanna á heimavelli Hauka sem unnu með fimm marka mun, 29:24.

Valur varð síðasta Íslandsmeistari í handknattleik karla fyrir þremur árum.  Leikmenn liðsins fengu Íslandsbikarinn afhentan á Ásvöllum eftir sigur á Haukum. Það ári var ekki haldin úrslitakeppni heldur réði niðurstaða af deildarkeppni úrslitum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert