Glæsilegur sigur á Þjóðverjum

Fögnuður í Santos.
Fögnuður í Santos. mbl.is/Egill Örn Þórarinsson

Ísland vann í kvöld glæsilegan sigur á Þýskalandi, 26:20, á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Santos í Brasilíu. Þar með á íslenska liðið á ný góða möguleika á að komast í 16-liða úrslit keppninnar.

Ísland er komið með 4 stig eftir fjóra leiki og mætir Kína í lokaumferðinni á föstudagskvöldið. Liðið þarf eitt stig úr þeim leik til að gulltryggja sér áframhald í keppninni.

Íslenska landsliðið lék frábæran handknattleik í 45 mínútur þar sem varnarleikurinn lagði grunninn að þessu sigri. Eftir erfiða byrjun, þar sem staðan var 11:4, fyrir Þýskaland eftir rúmlega 15 mínútur snéri íslenska liðið við blaðinu, breytt var í 6/0 vörn úr 5/1 og það skilað strax árangri. Þá fækkaði mistökum í sóknarleiknum verulega. Allt bar þetta árangur og íslenska liðið var marki yfir, 13:12, þegar flautað var til hálfleiks og var óheppið að vera ekki með tveggja marka forskot.

Síðari hálfleikur var í járnum allt þar til ellefu mínútur voru eftir. Þá skellti íslenska liðið algjörlega í lás í vörninni. Staðan breyttist úr 18:18, í 21:18. Þjóðverjar minnkuðu muninn í 21:20, en komst ekki lengra og skoraði ekki mark síðustu níu mínútur leiksins. Vörnin var frábær og Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði allt hvað af tók í markinu. Íslenska liðið bætti smátt og smátt við forskot sitt og vann sannfærandi og öruggan sigur, 26:20.

Leikur íslenska liðsins í 45 mínútur í dag var eflaust einn besti ef ekki sá besti sem íslenskt kvennalandslið í handknattleik hefur nokkru sinni leikið. Andstæðingurinn var mjög góður en varð algjörlega ráðalaus í mótlætinu. Þýska liðið vann Noreg í fyrstu umferð keppninnar, 31:28, sem segir ýmsisegt um  styrkleika þýska liðsins sem íslenska landsliðið vann að þessu sinni.

Ísland kv. 26:20 Þýskaland kv. opna loka
60. mín. Sabine Englert (Þýskaland kv.) varði skot - frá Önnu af línunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert