Stefán Rafn innsiglaði sigur Löwen

Stefán Rafn Sigurmannsson byrjaði vel með liði Rhein-Neckar Löwen.
Stefán Rafn Sigurmannsson byrjaði vel með liði Rhein-Neckar Löwen. mbl.is/Eggert

Stefán Rafn Sigurmannsson innsiglaði sigur Rhein-Neckar Löwen þegar liðið sigraði Magdeburg, 34:33, í framlengdum leik í þýsku bikarkeppninni í handknattleik í kvöld.

Löwen, sem lék á heimavelli, lenti í vandræðum en Magdeburg náði sex marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks en staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn, 27:27. Í framlengingunni reyndust lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar sterkari.

Stefán Rafn lék sinn fyrsta leik með Löwen og hann skoraði 4 mörk og gerði 34. og síðasta mark liðsins. Alexander Petersson náði hins vegar ekki að skora fyrir Löwen. Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson var í leikmannahópi Magdeburg í fyrsta sinn í langan tíma en hann hefur loks jafnað sig af veikindum.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 2 mörk og Aron Pálmarsson 1 fyrir Kiel í öruggum útisigri liðsins á Bad Schwartau, 35:26.

Emsdetten, sem leikur í B-deildinni, veitt stórliði Hamborg harða keppni en Hamborg marði sigur, 30:29. Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði 4 mörk fyrir Emsdetten og Ernir Hrafn Arnarsson 2. Hjá Hamburg var hinn hálf íslenski Hans Lindberg markahæstur með 13 mörk.

Flensburg vann öruggan útisigur á B-deildarliði Nordhorn, 35:19. Ólafur Gústafsson var ekki í leikmannahópi Flensburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert