ÍBV með Herjólfi ef fært verður

Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV, og Florentina Stanciu, markvörður. Þau verða …
Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV, og Florentina Stanciu, markvörður. Þau verða að treysta á að Herjólfur komi þeim frá Eyjum svo liðið geti leikið við Val í undanúrslitum Símabikarsins í Laugardalshöll á morgun. Ómar Óskarsson

Kvennalið ÍBV er ennþá í Vestmannaeyjum en til stóð að það kæmi til Reykjavíkur í dag með flugi en það á að mæta Val í undanúrslitum Símabikarsins í handknattleik kvenna í Laugardalshöll á morgun. Ekkert hefur verið flogið til og frá Vestmannaeyjum í dag en vonir standa til að Herjólfur leggi af stað síðar í dag og lið ÍBV verður þá með í för.

Róbert Geir Gíslason, starfsmaður Handknattleikssambands Íslands, sagði að til stæði að ÍBV-liðið komi með Herjólfi síðari í dag en áætlað er að Herjólfur leggi af stað frá Vestamannaeyjum klukkan 16. Spurður hvað gerist er ekki verður fært til Vestmannaeyja í dag sagðist Róbert ekkert vilja um það segja á þessu stigi. „Ég bara vona að Herjólfur leggi af stað klukkan fjögur í dag frá Eyjum,“ sagði Róbert.

Undanúrslitaleikirnir í Símabikar karla fara fram í Laugardalshöll í kvöld. Klukkan 17.10 leiða lið Selfoss og ÍR saman hesta sína og klukkan 19.45 Stjarnan og Akureyri. Sigurliðin eigast við í úrslitaleik á sunnudag.

Í kvennaflokki mætast eins og áður sagði Valur og ÍBV annarsvegar og Grótta og Fram hinsvegar. Þessir leikir eiga að fara fram á morgun. Lítið svigrúm er til þess að fresta leikjum þar sem gert er ráð fyrir að úrslitaleikurinn í kvennaflokki fari fram á sunnudag í Laugardalshöll eins og hinir leikirnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert