Patrekur: Þetta gat bara legið upp á við

„Það hefðu mörg lið brotnað við að lenda svona undir svo þetta sýnir styrk en auðvitað vill maður ekki að svona komi oft fyrir,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Hauka eftir sigurinn á ÍR í kvöld í Olís-deildinni.

Staðan var 14:10 ÍR í vil í hálfleik en eftir hlé mætti allt annað Haukalið til leiks sem innbyrti að lokum fimm marka sigur, 29:24.

„Við vorum svo langt frá því að vera til staðar, andlega eða líkamlega, í fyrri hálfleiknum. Ég var mjög óánægður með það og fann það líka í hálfleik að allir væru mjög ósáttir. Við vissum því að þetta gæti bara verið upp á við,“ sagði Patrekur.

„Ég fann ekki einu sinni pirring hjá mönnum í fyrri hálfleik, það voru bara engar tilfinningar. Menn voru óánægðir og biðu eftir að maðurinn við hliðina á sér gerði eitthvað í stað þess að líta í eigin barm. Í seinni hálfleik var allt annar vinnumórall hjá liðinu og þar af leiðandi unnum við leikinn með sannfærandi hætti,“ sagði Patrekur.

Nánar er rætt við Patrek í meðfylgjandi myndskeiði en beðist er velvirðingar á hljóðtruflunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert