Guðmundur: Hvað get ég sagt?

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. mbl.is/Golli

„Ég hef ekki áhuga á því að ræða meira um þetta mál. Ég vil í staðinn einbeita mér að seinni leiknum,“ segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, á vef TV2 í dag þegar hann er inntur eftir viðbrögðum dóms aganefndar EHF í máli hans og Talants Dusjabevs, þjálfara Kielce.

Dujshebaev slapp alfarið við leikbann vegna framkomu sinnar eftir leikinn en hann sló til Guðmundar og lét svo öllum illum látum á blaðamannafundi eftir leikinn þar sem hann sakaði Guðmund að hafa lítilsvirt sig bæði með orðum og leikrænum tilburðum.

Dujshebaev var sektaður um 5.000 evrur, jafnvirði 780 þúsund króna, vegna framkomu sinnar á fréttamannafundinum en helmingur sektarinnar, 2.500 evrur, er skilorðsbundinn og hegðun Dujshebaevs um helgina mun því aðeins kosta hann 390 þúsund krónur haldi hann skilorðið, fram til 30. júní á næsta ári.

„Þetta er ótrúlegt mál en hvað get ég sagt,“ segir Guðmundur.

Síðari leikur Löwen og Kielce fer fram á heimavelli Löwen á mánudagskvöldið en Kielce, sem Þórir Ólafsson leikur með, vann fyrri leikinn með fjögurra marka mun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert