Arnar: Við vonum það besta

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV. Árni Sæberg

Arnar Pétursson þjálfari ÍBV var eðlilega ekkert allt of sáttur við úrslitin í leiks síns liðs við deildarmeistara Hauka í lokaumferð Olís-deildarinnar í handknattleik en Haukarnir fóru með sigur af hólmi 23:22 í leik þar sem ekkert var undir.

„Mér fannst leikurinn ekkert sérstakur. Hann bar þess merki að ekki var mikið undir, nema kannski heiðurinn og þeir voru aðeins hungraðri en við í að klára þetta og gerðu það þótt það hafi verið tæpt undir lokin,“

Stærsti sigur ÍBV kom líklega í síðustu umferð þegar Eyjamenn sigruðu Valsara en þessi tvö lið munu etja kappi í undanúrslitum Íslandsmótsins á meðan Hafnarfjarðarliðin eigast við í hinni undanúrslitaviðureigninni.

„Við spiluðum virkilega vel á móti Val um daginn. Við erum búnir að lenda illa í því gegn Valsmönnum tvisvar í vetur og svöruðum því vel fyrir það síðast og sendum þannig ákveðin skilaboð um að við getum unnið Val. Það var góður sigur. Eðlilega voru menn því búnir ná markmiðum sínum og slaka því aðeins á,“ sagði Arnar.

Eyjamenn hafa vægast sagt vængbrotið lið. Meðal leikmanna sem meiddir eru Magnús Stefánsson, Dagur Arnarsson og Andri Heimir Friðriksson. Aðspurður um meiðslastöðu liðsins var Arnar ekki mjög bjartsýnn.

„Hún er ekkert sérstök við verðum að sjá hvernig næsta vika þróast. Þeir eru ekki í góðu standi, hvorki Maggi né Andri. Við verðum að púsla því saman sem við höfum. Mér líst ekkert illa á það.“

Arnar telur möguleika þeirra á að spila í úrslitakeppninni ekki vera mikla en vonar það besta. 

„Það eru ekkert miklir möguleikar á að þeir spili. Ég stórlega efast um það. Allavega ekki fyrsta leik en við vonum það besta, að þeir verði klárir þegar líður á úrslitakeppnina,“ sagði Arnar.

En Eyjamenn fara alls kostar óhræddir inn í úrslitakeppnina og ætla að njóta þess að vera þar

„Við ætlum að halda áfram að bæta okkur og ætlum að njóta þess að vera þar. Við ætlum að hafa gaman af henni og spila alvöru leiki við Val, sem eru með frábært lið,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert