Heimir Örn: ,,Gott að þetta er búið“

Heimir Örn Árnason.
Heimir Örn Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Örn Árnason var ansi léttur eftir að lærisveinar hans í liði Akureyrar voru endanlega sloppnir frá umspilsleikjum um laust sæti í efstu deild. Sigur Akureyrar á HK og mjög tæpur sigur FH á ÍR skutu Akureyringum upp fyrir ÍR í 6. Sæti deildarinnar en umspil hefur vofað yfir Akureyringum fá áramótum.

,,Það er gott að þetta er búið. Við vildum ekkert vera að spila meira og eyða einhverjum hundraðþúsundköllum í umspilið. Ég er ánægður með strákana en þeir sýndu flottan leik í kvöld. Við vorum bara klárir frá byrjun og fyrir utan smá kafla hér og þar þá var þetta góður leikur. Það er frábært að hafa náð þessu svona á endasprettinum. Ég er mjög sáttur með lokaumferðina hjá okkur fyrir utan hálfleik gegn Fram og annan gegn Val. Það var fullt af flottum leikjum hjá okkur og í heildina er ég ánægður.

Við erum fullir af sjálfstrausti eftir síðustu leiki og helst hefði ég viljað hafa leikina fleiri í deildinni. Veturinn fór dálítið í það að laga liðið eftir að við losuðum okkur við Serbann góða og svo voru menn í meiðslum þannig að þetta verður bara að teljast viðunandi eftir allt saman,“ sagði Heimir Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert