Davíð: Var hætt að standa á sama

„Mér var hætt að standa á sama í stöðunni 17:21 fyrir Selfoss en upp úr því tókst okkur að skora tvö mörk á sömu mínútunni og þá var sem við brytum ísinn," sagði Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar, sem átti stórleik þegar Afturelding vann Selfoss, 25:23, í lokaumferð 1. deildar karla að Varmá í kvöld. Með sigrinum tryggði Afturelding sér sæti í úrvalsdeild á næsta keppnistímabili eftir eins árs veru í 1. deild.

Davíð varði alls 19 skot, mörg á mikilvægum augnablikum í síðari hálfleik þegar Selfoss var með yfirhöndina og illa gekk í sóknarleik Mosfellinga.

„Nú fáum við pásu. Það er langt í næsta leik. Við erum vonandi allir reynslunni ríkari eftir að hafa verið í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum," sagði Davíð en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert