Átján leikir Guif án ósigurs

Kristján Andrésson er á sigurbraut með Guif.
Kristján Andrésson er á sigurbraut með Guif. mbl.is/Eggert

Kristján Andrésson og lærisveinar hans í Guif standa vel að vígi í átta liða úrslitunum um sænska meistaratitilinn í handknattleik eftir sigur á Redbergslid á útivelli í Gautaborg í gærkvöld, 26:21. Staðan er þá 2:0 fyrir Guif sem þarf einn sigur enn til að komast í undanúrslit og leikur næst á heimavelli.

Kristján sagði við sænska fjölmiðla að frábær varnarleikur og markvarsla hefðu lagt grunninn að sigrinum og fært liðinu auðveld mörk. Þetta var 18. leikur Guif í röð án taps eftir að liðið hafði farið rólega af stað á tímabilinu í vetur.

Heimir Óli Heimisson skoraði eitt mark fyrir Guif og Aron Rafn Eðvarðsson varði markið að vanda.

Ólafur Andrés Guðmundsson og félagar í Kristianstad eru hinsvegar í stöðunni 1:1 gegn Hammarby eftir tap á útivelli í Stokkhólmi í gærkvöld, 28:26. Ólafur skoraði 3 mörk fyrir Kristianstad.

Næstu leikir beggja Íslendingaliðanna eru á páskadag og þá eru þau bæði á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert