Erlingur og Geir með lið í úrslitakeppninni

Erlingur Richardsson þjálfaði hjá HK og ÍBV með afar góðum …
Erlingur Richardsson þjálfaði hjá HK og ÍBV með afar góðum árangri áður en hann hélt til Austurríkis á síðasta sumri. Lið hans Westwien hafnaði í öðru sæti í deildarkeppninni og leikur í úrslitakeppninni um austurríska meistaratitilinn. Árni Sæberg

Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í Westwien höfnuðu í öðru sæti í deildarkeppninni í austurríska handboltanum sem lauk í gær. Bregenz, liðið sem Geir Sveinsson þjálfar, varð í fjórða sæti og komust bæði liðin í úrslitakeppnina sem framundan er um austurríska meistaratitilinn. 

Westwien, sem Erlingur tók við þjálfun á á síðasta sumri vann Alpa Hard, 33:29, á útivelli í lokaumferðinni eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik, 16:15. Bregenz tapaði fyrir UHK Krems, 22:20, einnig á útivelli. 

Westwien mætir Union JURI Leoben í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst 25. apríl. Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast áfram í undanúrslit.  Bregenz mætir aftur á móti Moser Medical UHK Krems. 

Geir Sveinsson hættir hjá Bregenz við lok leiktíðar og flytur sig til Magdeburg í Þýskalandi þar sem hann hefur ráðið sig til þjálfunar liðs heimamanna frá og með miðju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert