Bjarni tekur við ÍR af Bjarka

Bjarni Fritzson tekur við ÍR í sumar.
Bjarni Fritzson tekur við ÍR í sumar. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Bjarni Fritzson hefur verið ráðinn þjálfari handknattleiksliðs ÍR frá og með næsta keppnistímabili og kemur þá í stað Bjarka Sigurðssonar sem er að ljúka sínu fjórða ári með Breiðholtsliðið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem handknattleiksdeild ÍR sendi frá sér í kvöld.

Bjarni hefur verið leikmaður og þjálfari Akureyringa undanfarin ár en tilkynnti eftir lokaleik liðsins í Olís-deildinni á dögunum að hann  væri á leið suður um heiðar á ný.

Tilkynningin hljóðar þannig: 

Handknattleiksdeild ÍR og Bjarki Sigurðsson hafa í sameiningu komist að þeirri niðurstöðu að Bjarki láti af störfum sem þjálfari MFL. karla hjá ÍR að afloknu tímabili.

Stjórn handknattleiksdeildar ÍR vill nýta tækifærið og koma á framfæri þökkum til Bjarka fyrir vel unnin og fagleg störf síðastliðin 4 keppnistímabil. Bjarki tók við liðinu í fyrstu deild, kom því upp í efstu deild þar sem liðið hefur blandað sér í baraáttu þeirra bestu síðastliðin 2 ár og landaði m.a. bikarmeistaratitli árið 2013 og lenti í öðru sæti í sömu keppni í ár. Guðmundur Helgi Pálsson, hægri hönd Bjarka, mun halda áfram störfum innan raða ÍR.

„Þessi ákvörðun er tekin í mesta bróðerni enda hef ég átt ánægjuleg 4 ár hjá félaginu ég og Guðmundur Helgi Pálsson viljum þakka öllu því góða fólki sem starfað hefur með okkur í kringum félagið og stjórn þess góð kynni og ánægjulega samfylgd. Við óskum ÍR alls hins besta,“ segir Bjarki Sigurðsson.

Bjarni Fritzson hefur verið ráðinn til næstu þriggja ára sem þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR og mun Einar Hólmgeirsson vera honum til aðstoðar ásamt því að þjálfa annan flokk félagsins. Bjarni mun jafnframt leika með liðinu. Bjarni og Einar gengu báðir upp í gegnum alla yngri flokka ÍR og spiluðu með meistaraflokki liðsins áður en þeir héldu til útlanda í atvinnumennsku og þekkja þeir því vel til félagsins.

„Um leið og ég vil þakka Bjarka og Guðmundi vel unninn störf þá erum við mjög ánægð með að fá Bjarna og Einar í hópinn. Bjarni hefur sannað sig sem þjálfari hjá Akureyri og Einar hefur öðlast mikla reynslu á ferli sínum sem leikmaður sem á eftir að nýtast honum vel. Við hlökkum mikið til að fá þá heim í Breiðholtið,“  segir Runólfur Sveinsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert