Glæsimark Arons gegn Metalurg (myndskeið)

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. AFP

Aron Pálmarsson á eitt af fimm flottustu mörkum fyrri umferðar 8-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu sem sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Aron skoraði sjö mörk í tíu marka sigri þýsku meistaranna í Kiel á liði Metalurg, 31:21, í Skopje á laugardaginn. Markið er einstaklega glæsilegt, þrumuskot efst í markhornið fjær. Það ber einstakri skottækni Arons fagurt vitni.

Auk þess að eiga eitt fallegasta mark umferðarinnar þá var Aron Pálmarsson einnig valinn í úrvalslið umferðinnar.

Besta mark umferðarinnar skoraðii Uwe Gensheimer, hornamaður Rhein-Neckar Löwen, gegn Barcelona. Hann fékk boltann í þröngu færi í vinstra horninu, kemst framhjá varnarmanni Barcelona, og setur boltann framhjá höfði markvarðar spænska liðsins. Þetta var eitt fjórtán marka Gensheimers í leiknum, aðeins þrjú voru af vítalínunni.

Sjón er sögu ríkari á meðfylgjandi myndskeiði af fimm flottustu mörkum fyrri leikja 8-liða úrslita Meistaradeildar Evrópu sem fram fór um helgina.

Myndskeið með mörkunum fimm, mark Arons er það næst síðasta í röðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert