Ísak: Ætlum alla leið

„Það kom ekkert annað til greina en að fara inn í leikinn til að vinna hann. Við höfðum tapað alltof mörgum leikjum fyrir Haukum í vetur og það var kominn tími til að sanna það að við gætum unnið þá. Ég held við höfum sýnt öllum sem horfðu á leikinn í dag að við erum komnir í þetta einvígi til þess að fara alla leið,“ sagði Ísak Rafnsson leikmaður FH eftir sigurinn á Haukum í kvöld.

FH sigraði Hauka, 32:25 á Ásvöllum í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit og er staðan nú 1:0 fyrir FH. Ísak skoraði 5 mörk fyrir FH í leiknum og lék vel í sterkri vörn FH-inga.

„Við vorum með blóð á tönnunum að hafa tapað svona mörgum leikjum fyrir þeim í vetur. En það á alveg að vera nóg að mæta Haukum til þess að vera klárir í slaginn. Það er rosalega ljúft að hafa unnið þá núna, en leikurinn á fimmtudaginn verður mikið erfiðari,“ sagði Ísak meðal annars í viðtali eftir leikinn við mbl.is.

Viðtalið við Ísak má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan. Beðist er afsökunar á hljóðskemmdum í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert