Romero rifar seglin

Iker Romero.
Iker Romero. AP

Spænski handknattleiksmaðurinn Iker Romero hefur ákveðið að rifa seglin við lok leiktíðar og hætta að leika sem atvinnumaður í handknattleik. Romero hefur undanfarin ár leikið undir stjórn Dags Sigurðssonar hjá þýsku bikarmeisturunum Füchse Berlín.

Síðasti leikur Romero með Berlínarliðinu verður gegn Kiel í lokaumferð þýsku 1. deildarinnar 24. maí. Eftir það ætlar hann að flytja heim í uppeldisbæ sinn, Vitoria, á Norður-Spáni.

Romero er fyrirliði Füchse Berlin og að margra mati kjölfesta þess. Hann varð heimsmeistari með spænska landsliðinu áður en hann hætti að gefa kost á sér í landsliðið og lék með Valladolid, León, Ciudad Real og Barcelona. Romero vann Meistaradeild Evrópu með Ciudad Real og stefnir á að leggja sitt lóð á vogarskálina svo Füchse geti fagnað sigri í EHF-keppninni eftir miðjan næsta mánuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert