Esther: Höfum lagt gríðarlega áherslu á vörnina

Esther Viktoría Ragnarsdóttir
Esther Viktoría Ragnarsdóttir mbl.is

Esther Viktoría Ragnarsdóttir átti fínan leik hjá Stjörnunni þegar liðið vann Gróttu 29:23 í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handknattleik í kvöld. 

Liðin mættust í Mýrinni í Garðabæ en næsti leikur verður á Seltjarnarnesi. Sólveig Lára Kjærnested gat ekki leikið vegna lærmeiðsla og nýlega datt Hanna G. Stefánsdóttir út úr leikmannahópi Stjörnunnar vegna axlarmeiðsla. Esther var mjög ánægð með frammistöðuna miðað við aðstæður þegar Mbl.is tók hana tali. 

„Ég er rosalega ánægð með liðið í dag. Okkur vantar tvo sterka leikmenn og gríðarlega mikilvægt að leikmenn séu að stíga fram og sýna að maður kemur í manns stað. Mér fannst við gera það í kvöld. Ég er ánægð með frammistöðuna ef frá er talin smá kafli þegar leið á leikinn. Á heildina litið er rosalega gott að hafa klárað dæmið með sigri og mér fannst við sterkar að þessu sinni. Ég er ánægð með liðið,“ sagði Esther og öflugur varnarleikur Stjörnunnar í kvöld er að hennar sögn engin tilviljun. 

„Við höfum lagt gríðarlega áherslu á vörnina síðustu tvær vikurnar eða jafnvel lengur. Það hafði verið svolítið vandamál upp á síðkastið og ég held að þessar áherslur hafi skilað sér í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert