„Bubbi fór illa með okkur“

Gunnar Magnússon.
Gunnar Magnússon. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, sagði sína menn ekki hafa spilað nægilega vel til þess að vinna Val þegar liðin mættust öðru sinni í undanúrslitum Olís-deildar karla í handknattleik á Hlíðarenda í dag. 

„Það vantaði aðeins upp á bæði í vörn og sókn. Markvarslan var heldur ekki nógu góð. Á heildina litið var þetta því ekki nógu gott hjá okkur í dag. Við erum ekki sáttir við okkur,“ sagði Gunnar þegar mbl.is tók hann tali. 

Gunnar benti á að framlag Hlyns Morthens í marki Vals hafi haft mikið að segja í leiknum. Þar hafi taflið snúist við frá því í fyrsta leiknum í Eyjum. Þá var markvarslan meiri hjá ÍBV og Eyjamenn unnu þann leik og tóku forystuna í rimmunni 1:0.

 „Bubbi réði úrslitum. Hann fór illa með okkur í dag og tók mörg færi frá okkur. Hann var ekki góður úti í Eyjum og þá voru okkar markmenn betri. Svona lagað sveiflast á milli leikja. Auk þess vorum við ekki nógu hreyfanlegir í vörninni og eigum nokkuð inni í sókninni. Valsmenn spiluðu betur í dag en það er samt stutt á milli í þessu. Það þýðir ekkert að væla eða vorkenna sér heldur spýta bara í lófana. Á sunnudaginn er nýr leikur á heimavelli og þá mætum við klárir í slaginn og lögum okkar leik,“ sagði Gunnar við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert