Handboltaparið á leiðinni til Noregs

Einar Rafn Eiðsson,
Einar Rafn Eiðsson, mbl.is/Árni Sæberg

Handboltaparið Einar Rafn Eiðsson og Unnur Ómarsdóttir eru á leið til Noregs og munu að öllu óbreyttu spila með liðum í norsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Einar Rafn hefur leikið með FH-ingum undanfarin ár en var þar áður í herbúðum Fram og Hauka þar sem hann er uppalinn. Hann er að ganga í raðir Nötteröy sem markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson hefur leikið með undanfarin ár en hann gekk á dögunum til liðs við Akureyri. Nötteröy náði að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni en liðið hafði betur í umspili við Viking Stavanger.

Unnur mun spila með liði Skrim sem vann sér sæti í úrvalsdeildinni í vor. Unnur hefur spilað með liði Gróttu á Seltjarnesi síðustu tímabil en spilaði þar áður með Fylki og KA. Í vetur varð hún markahæsti leikmaður Góttuliðsins og þá á hún fast sæti í íslenska A-landsliðinu. Hún er 24 ára gömul og leikur í stöðu hornamanns en getur einnig brugðið sér í skyttustöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert