IHF segist hafa breytt reglum 30. maí

Handbolti - bolti
Handbolti - bolti Eva Björk Ægisdóttir

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF hefur loksins rofið þögnina og svarað fyrirspurnum mbl.is og Morgunblaðsins um hvernig staðið var að reglubreytingu á mótafyrirkomulagi IHF sem varð til þess að Ástralía missti þátttökurétt sinn á HM 2015 í Katar og Þýskaland tæki sætið. Eftir ítrekaðar tilraunir blaðamanns til að ná sambandi við IHF barst loksins síðdegis í dag skriflegt svar í tölvupósti frá Monu Orban, fjölmiðlafulltrúa sambansins.

„Í mörg ár hefur IHF gefið landsliðum frá Eyjaálfu tækifæri á því að taka þátt í mótum á vegum IHF. Því miður er bilið milli landsliða álfunnar og þjóða úr öðrum heimsálfum á mótum of mikið og hefur ekki minnkað. Þó svo að ekkert lið frá Eyjáalfu verði með á HM í Katar mun IHF þó áfram gefa liðum frá heimsálfunni tækifæri til að keppa í öðrum mótum á vegum sambandsins, eins og HM í strandhandbolta og IHF Super Globe félagsliðakeppninni,“ segir meðal annars í bréfi IHF.

Handknattleikssamband Eyjaálfu ekki verið viðurkennt af IHF

IHF segir að nú séu gerðar kröfur á að til sé handboltasamband þjóða fyrir hverja heimsálfu og minnst tíu þjóðir hafi aðild að álfusambandinu til að það sé viðurkennt af IHF. IHF hafi enn ekki viðurkennt álfusamband fyrir Eyjaálfu og slík viðurkenning verði ekki fyrr en í október á þessu ári.

IHF segir jafnframt að sambandið hafi aldrei falið óformlegu handboltasambandi Eyjaálfu að halda forkeppni fyrir HM 2015 né hafi úrslit leikja Ástralíu og Nýja-Sjálands um laust sæti á HM, sem fóru fram í apríl, nokkru sinni verið staðfest af IHF. Í bréfi sínu til Morgunblaðsins segir IHF líka að sambandið hafi greint forráðamönnum Ástralíu og Nýja-Sjálands þann 11. apríl að æðsta ráð IHF, hið svokallaða IHF Council áskildi sér rétt til að taka stöðuna á Eyjaálfu á fundi sínum í Zagreb 8. júlí.

„IHF veitti vissulega aðstoð við framkvæmd leikja Ástralíu og Nýja-Sjálands í apríl til að hafa allt löglegt í framkvæmd leikjanna og til að hvetja þjóðirnar áfram í þróun sinni í handknattleik. Um leið hafi þeim þó verið gert ljóst að sigurvegari leikjanna kæmist ekki endilega á HM í Katar, það yrði endanlega ákveðið 8. júlí á fundinum í Zagreb. Þann 17. júní upplýsti IHF ástralska handknattleikssambandið svo aftur að enn hefði ekki verið tekin ákvörðun um það hvort Ástralía tæki sæti á HM 2015.“

Á fundi IHF Council 8. júlí var svo staðfest að handknattleikssamband Eyjaálfu hefði ekki ennþá hlotið viðurkenningu IHF. Eyjáalfa fengi því ekki eitt sæti á HM í Katar, heldur yrði því sæti úthlutað annarri þjóð.

Reglugerðinni breytt 30. maí en staðfest 8. júlí

„IHF Council breytti reglugerðum sínum um mótafyrirkomulag IHF þann 30. maí og breytti þá ákvæði númer 2.8 í reglugerðinni. Breytingin átti því stað áður en forkeppni fyrir HM 2015 fór fram og áður en vitað var hvaða þjóðir ynnu sér þátttökurétt á HM. Ráðið staðfesti svo breytinguna á reglugerðinni 8. júlí 2014 og samþykkti þá neðangreindan texta.“

2.8. Non-appearance:

If the team of a federation that has qualified for the World Championship does not take part, the IHF Executive Committee shall decide on a respective substitute nation.
If a Continental Confederation does not use its performance or compulsory places, or if another place is open due to any other reasons, the IHF Executive Committee shall decide on the reallocation of such places.

The IHF Executive Committee has the needed competence to decide about the awarding of open places, as they are always consulting the respective bodies within the IHF. Further the regulation for IHF competitions is being constantly revised and the IHF through the responsible COC are working continuously on updates to find the best solution for our sport worldwide. 

IHF telur því framkvæmdaráð IHF hafa fultl vald til að finna nýtt lið til að taka sæti Ástralíu á HM samkvæmt þessari reglubreytingu.

Heimsmeistaramót vega þyngra en keppni eins og EM

IHF rökstyður val sitt á Þýskalandi þannig að heimsmeistaramót IHF vegi alltaf þyngra en álfukeppnir eins og Evrópumót. Þannig telur árangur liða á HM inn á styrkleikalista þegar dregið er fyrir mót, en ekki árangur á mótum eins og EM.

Þetta er einmitt það sem Danir kvörtuðu sáran undan þegar dregið var í riðla fyrir Ólympíuleikana í London 2012. Þá voru Danir Evrópumeistarar og mótmæltu því harðlega að IHF skyldi raða Dönum í fimmta styrkleikaflokk, en IHF rökstuddi það með þeim hætti að árangur á HM skuli vega þyngra.

IHF segir jafnframt máli sínu til stuðnings að það séu sjö sæti á HM sem gefa þátttökurétt í forkeppni Ólympíuleika, sem séu mikið fleiri sæti en álfukeppnirnar gefi. Það sé því eðlilegt að mati IHF að árangur frá síðasta heimsmeistaramóti sé haft til hliðsjónar þegar val á varaþjóð fyrir Ástralíu hafi verið valin. Þýskaland hafi endað í 5. sæti á HM á Spáni 2013, og var það land sem náði bestum árangri þeirra landsliða sem ekki höfðu þegar unnið sér sæti á HM 2015 í Katar.

Samskiptin við Ástralíu og Nýja-Sjáland voru ekki gerð opinber

Í lok bréfsins segir svo: „Samksipti IHF við Ástralíu og Nýja-Sjáland í apríl voru ekki gerð opinber, þar sem forkeppni fyrir HM 2015 í öðrum heimsálfum hafði ekki enn farið fram og vangaveltur um aukasæti á HM ættu ekki að vera opinberar fyrr en IHF Council hefði tekið á málinu.“

HSÍ: Krefjumst þess að Íslandi fari á HM

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert