FH fær markvörð Stjörnunnar að láni

Brynjar Darri Baldursson er kominn til FH að láni og …
Brynjar Darri Baldursson er kominn til FH að láni og tekur hér í spaðann á Ásgeiri Jónssyni, formanni handknattleiksdeildar FH. Ljósmynd/FH

Ljóst er að FH mun tefla fram ungu markvarðapari í Olís-deild karla í handknattleik næsta vetur en félagið hefur fengið Brynjar Darra Baldursson að láni frá Stjörnunni til eins árs.

Brynjar Darri er 21 árs gamall en fyrir eru FH-ingar með hinn 19 ára gamla Ágúst Elí Björgvinsson. Aðalmarkvörður liðsins síðustu ár og einn albesti markvörður deildarinnar, Daníel Freyr Andrésson, gekk í raðir SönderjyskE í sumar.

Brynjar Darri hefur leikið með öllum unglingalandsliðum Íslands og hóf 17 ára gamall að spila með meistaraflokki Stjörnunnar. Hann átti sinn þátt í því að Stjarnan vann sér sæti í Olís-deildinni síðastliðið vor.

„Það er frábært að fá Brynjar Darra til liðs við Fimleikafélagið og mun hann vera okkur góður liðsstyrkur. Hann hefur mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur og mun vera Ágústi Elí til halds og trausts næsta vetur. Þeir tveir munu mynda skemmtilegt og metnaðarfullt markmannsteymi hjá okkur næsta vetur,“ segir Ásgeir Jónsson formaður handknattleiksdeildar FH í fréttatilkynningu.

„Við misstum stóran póst þegar Danni fór í atvinnumennskuna og leituðum til Stjörnunnar með að fá Brynjar Darra lánaðan enda teljum við hann gríðarlega öflugan markmann. Stjörnumenn sýndu mikla fagmennsku og velvilja í okkar garð og lánuðu okkur drenginn næsta tímabil,“ sagði Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert