Andri Hrafn til FH

Andri Hrafn og Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH við undirskriftina.
Andri Hrafn og Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH við undirskriftina. Mynd/FH

Andri Hrafn Hallsson skrifaði um helgina undir tveggja ára samning við handknattleikslið FH en hann kemur til liðsins frá Selfossi.

Andri Hrafn er 23 ára örvhentur hornamaður og hefur spilað stórt hlutverk í liði Selfyssinga síðustu ár en hann spilaði fyrri hluta tímabilsins 2012-2013 með liði Aftureldingar. Á nýliðnu tímabili var hann fyrirliði Selfyssinga og var næst markahæsti leikmaður liðsins í deildinni með 53 mörk í 15 leikjum.

„Ég var búinn að hugsa mér til hreyfings í sumar, enda búsettur í Reykjavík og í námi,“ sagði Andri Hrafn.

„Þegar FH hafði samband var ég strax áhugasamur enda eitt stærsta lið landsins. Í lokin var þetta ekki spurning og ég er bæði stoltur og gríðarlega spenntur fyrir því að vera hluti af liði sem kemur til með að berjast um alla titla á komandi tímabili. Það er þó ekki auðveld ákvörðun að yfirgefa Selfoss, og þakka ég öllum Selfyssingum fyrir samstarfið og óska þeim góðs gengis í vetur,“ sagði Andri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert