IHF mun skoða tillögur HSÍ

Vonir Íslands um að spila á HM í Katar virðast …
Vonir Íslands um að spila á HM í Katar virðast ekki hafa aukist mikið á fundinum í dag. mbl.is/Eva Björk

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ og Davíð B. Gíslason varaformaður áttu í dag fund með Hassan Moustafa, forseta alþjóða handknattleikssambandsins (IHF) og fleiri aðilum sambandsins, í Basel í Sviss varðandi reglubreytingar IFH sem snúa að því hvaða þjóðir spila á HM karla í Katar í janúar.

Eins og fram hefur komið var Ástralía svipt sæti sínu á HM á grundvelli reglubreytinga IHF og fékk Þýskaland sætið í staðinn þrátt fyrir að Ísland hefði áður verið tilnefnt af EHF sem fyrsta varaþjóð Evrópu.

Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu frá IHF og HSÍ um fundinn í dag greindi Moustafa frá málinu út frá sjónarhóli IHF. Hann skýrði frá þeim skrefum sem tekin voru við breytingar á greinum 2.3 og 2.8 í mótareglum sambandsins.

Forráðamenn HSÍ lýstu yfir efasemdum um lögmæti ferlisins og breytinganna, en Moustafa sagði að gengið hefði verið úr skugga um lögmæti breytinganna.

Aðilar fundarins skiptust á hugmyndum varðandi þetta mál en hugmyndir hafa til að mynda verið uppi um að fjölga keppnisþjóðum á HM svo að bæði Ísland og Þýskaland, sem og Ástralía, gætu tekið þátt. Ákveðið var að IFH myndi skoða þær tillögur sem komu fram og greina frá niðurstöðum þeirrar athugunar síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert