Kristín verður spilandi aðstoðarþjálfari - tveir leikmenn væntanlegir

Kristín Guðmundsdóttir verður spilandi aðstoðarþjálfari.
Kristín Guðmundsdóttir verður spilandi aðstoðarþjálfari. mbl.is/Ómar

Kristín Guðmundsdóttir handknattleikskona úr Val mun verða spilandi aðstoðarþjálfari Vals á næstu leiktíð og mun þar aðstoða Óskar Bjarna Óskarsson sem tók við liðinu eftir síðasta tímabil af Stefáni Arnarssyni. Þá er Valsliðið búið að semja við leikmann frá Svartfjallalandi og annar er á leiðinni. Þetta staðfesti Óskars Bjarni Óskarsson í samtali við mbl.is.

Kristín samdi við liðið til eins árs og verður einn af fáum leikmönnum liðsins sem heldur áfram frá síðasta tímabili.

Meðal leikmanna sem verða ekki með Valskonum en spiluðu á síðasta tímabili eru Hrafnhildur Skúladóttir og að öllum líkindum systir hennar Rebekka Rut, Anna Úrsula Guðmundsdóttir og Karólína Bæhrenz Lárudóttir eru farnar í Gróttu og Aðalheiður Hreinsdóttir er að fara utan í nám. Þá verða markmennirnir Berglind Íris Handóttir og Guðný Jenný Ásmundsdóttir ekki heldur með á komandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert