Dagur krækir í Dana

Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin. EPA

Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska 1. deildarliðsins Füchse Berlin, hefur náð samkomulagi við danska handknattleiksmanninn, Kasper Nielsen, um að hann leiki með félaginu á keppnistímabilinu sem hófst í Þýskalandi á laugardaginn. 

Margir leikmanna Berlínarliðsins eru meiddir og verða frá keppni um lengri og skemmri tíma af þeim sökum og þar af leiðandi er leikmannahópur liðsins fámennur um þessar mundir.

Nielsen, sem er 39 ára gamall, er sterkur varnarmaður. Honum er ætlað að fylla skarð Denis Spoljaric sem verður lengi frá vegna meiðsla. Nielsen verður í leikmannahópi Berlínarliðsins þegar það mætir Bergischer á föstudagskvöldið í annarri umferð þýsku 1. deildarinnar. 

Nielsen á að baki 189 landsleiki fyrir Danmörku. Hann var sigurliði Dana á EM 2008 og aftur 2012 og í silfurliðinu á HM 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert