Farsæl lausn fyrir báða

Agnar Smári Jónsson leikmaður ÍBV í leik gegn Haukum í …
Agnar Smári Jónsson leikmaður ÍBV í leik gegn Haukum í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íslandsmeistarar ÍBV í handknattleik karla leika báða leikina við ísraelska meistaraliðið Maccabi Rishon Lezion í fyrstu umferð EHF-keppninnar á heimavelli. Ákveðið var í gær að leikirnir fari fram 13. og 14. september.

Vegna stríðs fyrir botni Miðjarðarhafs ákvað Handknattleikssamband Evrópu fyrir nokkru að Ísraelsmennirnir mættu ekki leika heimaleiki sína í Ísrael. „Þar af leiðandi gerðum við samkomulag við forráðamenn liðsins um að leika báða leikina í Eyjum í stað þess að leika útileikinn einhvers staðar í Evrópu,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Íslandsmeistara ÍBV, í samtali við Morgunblaðið í gær. „Þetta var farsælasta lausnin fyrir báða aðila,“ sagði Gunnar sem þegar er farinn að viða að sér vitneskju um lið Maccabi Rishon Lezion.

„Þetta lið lék við FH í forkeppni Meistaradeildar fyrir þremur árum og vann þá með eins marks mun í hörkuleik. Eftir því sem ég kemst næst er þetta lið sem við eigum að geta unnið. Ég á von á tveimur hörkuleikjum og að þetta verði skemmtilegt verkefni fyrir okkur áður en Íslandsmótið hefst,“ segir Gunnar og bætir við að sigurliðið mæti norska liðinu Elverum í annarri umferð EHF-keppinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert