FH vann Íslandsmeistarana

Ásbjörn Friðriksson skoraði sjö mörk í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson skoraði sjö mörk í kvöld. mbl.is/Kristinn

FH lagði Íslandsmeistara ÍBV að velli, 26:21, þegar Hafnarfjarðarmótið í handbolta karla hófst í Strandgötu í kvöld. Haukar unnu Akureyri, 25:22.

FH, sem leikur nú undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar, komst í 17:11 í fyrri hálfleik í kvöld. Ásbjörn Friðriksson var markahæstur í liðinu með 7 mörk og Ísak Rafnsson skoraði 6. Hjá Eyjamönnum var Theodór Sigurbjörnsson markahæstur með 7 mörk. Selfyssingurinn Einar Sverrisson, sem kom til ÍBV til að fylla skarð Róberts Arons Hostert, kom næstur með 4 mörk.

Árni Steinn Steinþórsson var atkvæðamestur hjá Haukum í kvöld en hann skoraði 9 mörk í sigrinum á Akureyri, sem var marki yfir í hálfleik, 13:12. Einar Pétur Pétursson skoraði 5. Hjá Akureyri var Kristján Orri Jóhannsson markahæstur með 8 mörk og Brynjar Hólm Grétarsson skoraði 6. Varnarparið úr silfurliði Íslands í Peking 2008, þeir Sverre Jakobsson og Ingimundur Ingimundarson, voru báðir með Akureyringum í kvöld eftir að hafa komið til liðsins í sumar.

Mótið heldur áfram á morgun þegar Haukar mæta ÍBV kl. 18 og FH mætir Akureyri kl. 20. Lokaumferðin er svo á laugardaginn. Allir leikirnir fara fram í Íþróttahúsinu við Strandgötu.

Stjarnan vann HK á UMSK-mótinu

Á UMSK-mótinu vann Stjarnan sigur á HK, 30:26, þar sem Starri Friðriksson var markahæstur Stjörnumanna með 7 mörk. Þorgrímur Smári Ólafsson, sem lék með Val á síðustu leiktíð, skoraði 6 mörk fyrir HK. Afturelding vann Gróttu 25:22 en ekki hafa borist upplýsingar um markaskorara í leiknum.

Í kvennaflokki á sama móti vann Fylkir stórsigur á FH, 32:17. Patrícia Szölösi var markahæst með 9 mörk og Hildur Björnsdóttir skoraði 6. Aníta Mjöll Ægisdóttir var atkvæðamest hjá FH með 4 mörk.

Loks vann ÍR tíu marka sigur á KR, 35:25, á Reykjavíkurmóti karla en ekki hafa borist upplýsingar um markaskorara í þeim leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert