Fimm marka tap ÍBV

Leikmenn ÍBV verða í eldlínunni í Evrópukeppninnni gegn Maccabi Rashon …
Leikmenn ÍBV verða í eldlínunni í Evrópukeppninnni gegn Maccabi Rashon Lezion frá Ísrael. Sigfús Gunnar Guðmundsson

ÍBV tapaði í dag fyrir ísraelska liðinu Maccabi Rishon Lezion í fyrstu umferð EHF bikarsins en leikurinn fór fram í Eyjum. Lokatölur urðu 25:30 en staðan í hálfleik var 11:13.

Ísraelsmenn voru skrefi á undan allan í leiknum en Eyjamenn komust aðeins einu sinni yfir, 15:14 í upphafi síðari hálfleiks. Í kjölfarið skoruðu gestirnir hins níu mörk gegn aðeins tveimur mörkum ÍBV og breyttu stöðunni í 17:23.

Stuttu síðar fékk markvörður gestanna og þeirra besti maður, Vasile Iulian Strat að líta rauða spjaldið. Það kom þó ekki að sök og sigur Maccabi var aldrei í hættu. Liðin mætast að nýju í Vestmannaeyjum á morgun, sunnudag klukkan 14:00 og verður fylgst með leiknum hér á mbl.is.

Markahæstur hjá ÍBV var Einar Sverrisson með átta mörk en hornamennirnir Grétar Þór Eyþórsson og Theodór Sigurbjörnsson skoruðu fimm mörk hvor. Haukur Jónsson varði 12 skot. Hjá Maccabi voru þeir Gal Moshe Avraham og Amit Yehiel Stelman markahæstir með 8 mörk en markvörður þeirra, Vasile Iulian Strat varði 18 skot.

60. Leik lokið.Lokatölur 25:30

55. Markvörður Maccabi og þeirra besti maður,Vasile Iulian Strat var að fá rauða spjaldið. Stöðvaði leikmann ÍBV í hraðaupphlaupi. Áfall fyrir Maccabi. Rúmar fimm mínútur eftir og staðan 21:26 fyrir Ísraela.

50. Ísraelar hafa heldur betur tekið við sér en eftir að Grétar Eyþórsson hafði komið ÍBV yfir 15:14, skoruðu gestirnir níu mörk gegn aðeins tveimur mörkum Eyjamanna og breyttu stöðunni í 17:23 á aðeins sjö mínútna kafla. Ísraelsmenn voru eldsnöggir fram völlinn og skoruðu hvert annað hraðaupphlaupsmarkið á fætur öðru. Auk þess var markvörður gestanna Vasile Iulian Strat heimamönnum erfiður en hann er búinn að verja vel. Eyjamenn hafa aðeins lagað stöðuna en þegar 10 mínútur eru eftir, er staðan 20:24. Heimamenn verða að laga stöðuna enn betur til að auka möguleika sínum í seinni leiknum á morgun.

40. Eyjamenn byrjuðu seinni hálfleikinn vel, voru búnir að jafna á innan við tveimur mínútum 13:13. Grétar Eyþórsson kom Eyjamönnum svo í fyrsta sinn yfir, 15:14 fyrir skömmu, þegar Eyjamenn voru einum færri en Ísraelsmenn jöfnuðu strax aftur. Það eru tuttugu mínútur til leiksloka og spennan heldur áfram.

31. Seinni hálfleikur er hafinn og nú byrja Eyjamenn með boltann í sókn. Þeir eru tveimur mörkum undir og hafa leikið undir getu í fyrri hálfleik. Sjáum hvað þeir gera í þeim síðari.

30. Markahæstur hjá ÍBV er Einar Sverrisson sem hefur skorað fjögur mörk en hjá Maccabi eru þeir Gal Moshe Avraham og Amit Yehiel Stelman báðir búnir að skora fjögur mörk. Vasile Iulian Strat, markvörður Maccabi hefur verið Eyjamönnum erfiður en hann er búinn að verja átta skot, þar af eitt víti. Haukur Jónsson, markvörður ÍBV er búinn að verja fimm skot. Þess má geta að þetta skrifast sem heimaleikur ÍBV, sem gæti skipt máli þegar upp er staðið eftir leikinn á morgun.

30. Það er kominn hálfleikur í leik ÍBV og Maccabi frá Ísrael og staðan er 11:13. Gestirnir hafa verið skrefi á undan í fyrri hálfleik, náðu strax tveggja marka forystu og hafa að mestu haldið henni. Eyjamenn hafa ekki enn náð að komast yfir en hafa þó fengið fjölmörg tækifæri til þess. Íslandsmeistararnir hafa ekki náð sér almennilega á strik í dag, hafa farið illa með fjölmörg dauðafæri en verða vonandi hressari í seinni hálfleik. Annars er ísraelska liðið sterkt, með marga eldsnögga og lipra leikmenn en leikmenn ÍBV eru bæði stærri og sterkari og verða að nýta sér það betur í seinni hálfleik.


20.
Nú eru 20 mínútur búnar af leiknum og staðan er 8:9. Eyjamenn hafa fengið nokkur tækifæri til að komast yfir í leiknum en ávallt mistekist. Það er einhver skjálfti í Eyjamönnum sem eru að leika sinn fyrsta Evrópuleik í dag. Þrír hafa skorað tvö mörk hjá ÍBV, þeir Einar Sverrisson, Theodór Sigurbjörnsson og Agnar Smári Jónsson.

10. Nú eru tíu mínútur búnar af leiknum og staðan er 4:6. Ísraelsmenn hafa byrjað betur, náðu fljótlega tveggja marka forystu og hafa haldið henni fram að þessu. Bæði lið leika 5-1 vörn, nokkuð hefðbundin hjá Ísraelsmönnum en Eyjamenn leika sína hefðbundnu og djörfu vörn. Gal Moshe Avraham hefur farið mikinn í liði Maccabi en hann hefur skorað fjögur af sex mörkum gestanna. Sóknarleikur Eyjamanna er nokkuð stirður í upphafi leiks en eldsnöggir Ísraelsmenn hafa fundið glufur í varnarleik heimamanna.

1.Leikurinn hafinn og það eru Ísraelsmenn sem hefja leikinn í sókn.

0. Maccabi leikur í röndóttum búningum, gulum og bláum en Eyjamenn að sjálfsögðu í sínum hvítu búningum. Í lið Ísraelsmanna vantar rétthentu stórskyttuna Andrey Starykh frá Rússlandi. Sá þykir nokkuð seigur í tuðrukastinu. Nokkuð fjölmennt í stúkunni, þó ekki alveg fullt en stemmningin er góð. Stuðningsmannasveitin Hvítu riddararnir eru auðvitað á sínum stað.

0. Ísraelska liðið er eitt af sterkari liðum þar í landi en liðið endaði í þriðja sæti ísraelsku deildarinnar og féll úr keppni í undanúrslitum úrslitakeppninnar á síðasta tímabili. Tímabilið í ísraelska boltanum er ekki byrjað, ekki frekar en hér á Íslandi. Vegna ástandsins við botn Miðjarðarhafs fara báðir leikir liðanna fara fram í Eyjum.

0. Þetta er í fyrsta sinn í 23 ár sem ÍBV spilar í Evrópukeppninni. Haustið 1991 léku Eyjamenn í fyrsta sinn í Evrópukeppni gegn norska liðinu Runar og töpuðu þeirri viðureign. Reynsla ísraelska liðsins er talsvert meiri af Evrópukeppninni. Liðið komst í átta liða úrslit 2009 en 1983 náði Maccabi alla leið í undanúrslit en var slegið úr keppni af stórliði Barcelona. Liðið hefur síðustu ár tekið reglulega þátt í Evrópukeppnum en með misjöfnum árangri.

0. Eyjamenn tefla fram lítið breyttu liði frá síðasta tímabili. Róbert Aron Hostert er reyndar farinn í atvinnumennsku í Danmörku og munar um minna. Selfyssingurinn Einar Sverrisson er hins vegar kominn í hans stað og sömuleiðis Eyjamaðurinn Leifur Jóhannesson, sem lék með Þrótti í 1. deildinni síðasta tímabil. Andri Heimir Friðriksson er ekki með ÍBV í dag vegna meiðsla og varnarjaxlinn Sindri Haraldsson er tæpur en er á leikskýrslu. Athygli vekur að ísraelska liðið er aðeins með 11 leikmenn á skýrslu, þar af tvo markverði. Dómarar leiksins koma frá Belgíu, þeir Sigurd Tomassen og Robias Schmack og eftirlitsmaður er hinn færeyski Kristian Johansen.

Nú eru 20 mínútur búnar af leiknum og staðan er 8:9.  Eyjamenn hafa fengið nokkur tækifæri til að komast yfir í leiknum en ávallt mistekist.  Það er einhver skjálfti í Eyjamönnum sem eru að leika sinn fyrsta Evrópuleik í dag.  Þrír hafa skorað tvö mörk hjá ÍBV, þeir Einar Sverrisson, Theodór Sigurbjörnsson og Agnar Smári Jónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert