Evrópuævintýri Eyjamanna lokið

Úr leik ÍBV í dag.
Úr leik ÍBV í dag. mbl.is/Sigfús

Evrópuævintýri ÍBV lauk í dag þegar Eyjamenn töpuðu í annað sinn fyrir ísraelska liðinu Maccabi 25:27.Fyrri leik liðanna, sem fór fram í Eyjum í gær, lauk með sigri Maccabi, 25:30 og fara Ísraelsmennirnir því áfram 50:57 samanlagt. 

Maccabi var einfaldlega sterkara en Íslandsmeistararnir og komust verðskuldað áfram í 2. umferð EHF bikarsins þar sem þeir munu mæta norska liðinu Elverum. 

Markahæstur hjá ÍBV var Einar Sverrisson sem skoraði 7 mörk en hornamennirnir Grétar Þór Eyþórsson og Theodór Sigurbjörnsson skoruðu fimm mörk hvor.  Kolbeinn Arnarson kom inn á í mark ÍBV í síðari hálfleik og varði 12 skot en Haukur Jónsson varði 7.

60. Leik lokið. Eyjamenn eru úr leik.

55. Fimm mínútur eftir og Ísraelar komust yfir nú fyrir skömmu í fyrsta sinn síðan í byrjun leiks.  Staðan nú er 22:24 og Evrópuævintýri Eyjamanna lokið í bili.  Kolbeinn Arnarson hefur hins vegar komið sterkur inn í lið ÍBV en hann er búinn að verja 11 skot á um tuttugu mínútum.

50. Nú eru aðeins tíu mínútur eftir af leik ÍBV og Maccabi frá Ísrael í fyrstu umferð EHF bikarsins og staðan er 21:20.  Eyjamenn hafa nartað í hæla Ísraelsmanna en aldrei náð að jafna í einvíginu.  Í tvígang hefur ÍBV náð fjögurra marka forystu, í sitthvorum hálfleiknum en leikmenn Maccabi hafa ávallt náð að minnka forskotið.  Þeir virðast hafa þetta í hendi sér eins og staðan er núna.  Sjáum hvort kraftaverk eigi sér stað hér á lokamínútunum.

40. Staðan í leik ÍBV og Maccabi frá Ísrael er 19:16 þegar 10 mínútur eru búnar af síðari hálfleik.  Ísraelar höfðu fimm marka forystu eftir fyrri leikinn en Eyjamenn voru með fjögurra marka forystu seint í fyrri hálfleik en Ísraelsmenn skoruðu þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks.  Það vantar aðeins herslumuninn á þetta hjá ÍBV en nóg eftir ennþá.

31. Þá er síðari hálfleikur hafinn.  Eyjamenn byrja í sókn og eru einu marki yfir.  Þeir þurfa að vinna með sex mörkum eða skora 31 mark og vinna með fimm.  Sjáum hvað setur.

30. Þá er kominn hálfleikur í síðari leik ÍBV og Maccabi og staðan er 13:12. Eyjamenn hafa verið skrefi á undan í dag, öfugt við það sem var í gær en mestur hefur munurinn verið fjögur mörk, 13:9.

Í kjölfarið fengu tveir leikmenn ÍBV brottvísanir með stuttu millibili og það nýttu gestirnir sér vel með því að skora þrjú mörk í röð og minnka muninn í 13:12.  Það eru aðeins aðrar áherslur hjá belgíska dómaraparinu en hjá kollegum þeirra í íslensku stéttinni.

Belgía er ekki stærsta handboltaþjóðin í Evrópu en þeir Sigurd og Tobias halda þó sömu línu og í fyrri leiknum.  Leikmenn ættu því ekki að láta neitt koma sér á óvart í þeim efnum en Eyjamenn eru eitthvað að pirra sig á einstaka dómum.

Markahæstir hjá ÍBV í hálfleik eru þeir Einar Sverrisson og Grétar Þór Eyþórsson sem hafa skorað fjögur mörk en Haukur Jónsson hefur verið sjö skot.

20. Jafnræði er með liðunum en Eyjamenn þó verið skrefi á undan.  Þeir voru rétt í þessu að komast þremur mörkum yfir í fyrsta sinn en staðan er 10:7.  Þar með munar aðeins tveimur mörkum á liðunum en Maccabi vann fyrri leikinn með fimm marka mun.

10. Tíu mínútur eru búnar af leik ÍBV og Maccabi.  Liðin hafa skipst á að skora í upphafi leiks en Eyjamenn voru að komast tveimur mörkum yfir, 5:3.  Markverðir liðanna beggja byrja ágætlega en Haukur Jónsson hjá ÍBV er búinn að verja fjögur skot en ísraelski markvörðurinn 3.

1. Þá er síðari leikur ÍBV og Maccabi hafinn.  Dómararnir eru þeir sömu og í gær og koma frá Belgíu, þeir Sigurd Thomassen og Tobias Scmack.  Eyjamenn eru fimm mörkum undir og gætu lent sex mörkum undir þar sem Maccabi byrjar í sókn.

Fyrri leikurinn fór fram í Eyjum í gær og þá höfðu Ísraelsmenn betur 25:30.  Það er því á brattann að sækja fyrir Eyjamenn sem léku ekki vel í gær og fóru illa með fjölmörg dauðafæri.

Það er hins vegar engin uppgjöf í liði Eyjamanna, sem reyndar leika sem gestir í dag þar sem leikurinn í dag telst vera heimaleikur Maccabi.  Fylgst verður með leiknum hér á mbl.is og fréttir af stöðu mála birtar með reglulegu millibili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert