Getur vart beðið eftir að keppni hefst

Varnarjaxlarnir Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson verða samherjar á ný …
Varnarjaxlarnir Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson verða samherjar á ný með Akureyri handboltafélagi í vetur. Morgunblaðið/Golli

„Ég er ánægður með að vera kominn heim eftir nokkurra ára útiveru. Við höfum komið okkur vel fyrir og er tilbúinn að hefja hefðbundið líf á nýjan leik,“ segir Sverre Andreas Jakobsson, annar þjálfari Akureyri handboltafélags, sem einnig verður leikmaður liðsins á komandi keppnistímabili í Olís-deild karla í handknattleik.

Sverre flutti heim til Íslands í sumar eftir að hafa verið atvinnumaður handknattleik í Þýskalandi í átta ár að einu ári undanskildu, 2008-2009, þegar hann lék með HK. „Það er allt að detta í rútínu hjá okkur hér á Akureyri og ég byrja að vinna um næstu mánaðarmót,“  segir Sverre sem hefur ráðið sig til endurskoðunarfyrirtækisins Enor.is.

„Það er spennandi og krefjandi verkefni að koma að þjálfun Akureyrarliðsins með Heimir Erni Árnasyni. Hópurinn í kringum liðið er afar skemmtilegur og mórallinn er mjög góður. Við erum með fjölmennan hóp sem er að uppistöðu til skipaður ungum leikmönnum. Við sjáum bara fram á skemmtilegan vetur,“ segir Sverre sem ætlar að einbeita sér meira að því að vera leikmaður Akureyrarliðsins í vetur, fremur en þjálfari. „Að minnsta kosti ætla ég að vera fyrst og fremst leikmaður og lít meira á hlutverk mitt um þessar mundir að vera aðstoðarþjálfari. Það er erfitt að vera í báðum hlutverkum í einu og ætla sér að standa sig vel á báðum vígstöðvum,“ segir Sverre og undirstrikar að hann og Heimur Örn hafi komið sér upp skýrri verkaskiptingu auk þess sem Sigurpáll Árni Argrímsson hefur samþykkt að vera aðstoðarmaður þeirra í leikjum.

Sverre segir að ljóst sé að liðið muni leggja ríka áherslu á að ná upp góðri vörn og markvörslu þar sem hann og Ingimundur Ingimundarson verða í aðahlutverkum. „Við munum ekkert gleyma okkur í varnarleiknum. Innan hópsins er hörkuefnilegir strákar sem geta spilað sóknarleik og þeir munum standa sig vel í því hlutverki en vissulega munum við gera miklar kröfur til okkar að leika góða vörn og að markvarslan verði í lagi.

Sverre segir markmið liðsins vera að gera mun betur en síðustu ár. „Við ætlum hinsvegar ekkert að gefa það sérstaklega upp. Vegna meiðsla þá er ljóst að við verðum að vinna okkur smátt og smátt inn í mótið með það í huga að toppa á réttum tíma þegar liður á keppnistímabilið og úrslitakeppnin nálgast,“ segir Sverre en ljóst er að Akureyrarliðið mun ekki geta stillt upp sinn allra sterkustu sveit strax í fyrsta leik. Bergvin Gíslason verður frá keppni vegna axlarmeiðsli eitthvað fram eftir ári, Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður, er að jafna sig eftir aðgerð á hné og stórskyttan unga, Valþór Guðrúnarson, verður frá keppni fram yfir áramót. „Við erum með stóran hóp leikmanna og það kemur maður í manns stað. Hugarfarið er gott hjá strákunum og við hlökkum til þess að byrja. Undirbúningur hefur gengið vel hjá okkur.

Um þessar mundir eru við á fínu róli eftir að hafa æft vel  en það tekur alltaf einhvern tíma að fá hlutina til þess að smella saman. En eins og staðan er núna þá getum við vart beðið eftir að deildin hefjist,“ segir Sverre Andreas Jakobsson, leikmaður og annar þjálfara Akureyrar handboltafélags.

Akureyringar byrja með með tveimur útleikjum, við HK á fimmtudag og Hauka á sunnudag eftir viku. Annan fimmtudag verður síðan komið að fyrsta heimaleikjunum þegar Stjarnan úr Garðabæ kemur í heimsókn.

Ítar­leg um­fjöll­un var um lið Akureyrar og Fram í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins í gær, laugardag. Morg­un­blaðið og mbl.is halda áfram að hita upp fyr­ir kom­andi tíma­bil í Olís-deild karla næstu daga.

Þrándur Gíslason Roth verður í stórum hlutverki hjá Akureyrarliðinu á …
Þrándur Gíslason Roth verður í stórum hlutverki hjá Akureyrarliðinu á komandi keppnistímabili. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Andri Snær Stefánsson var í fyrsta liði Akureyrar handboltafélags sem …
Andri Snær Stefánsson var í fyrsta liði Akureyrar handboltafélags sem lék í úrvalsdeild fyrir átta árum. Hann er enn að. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Heimir Örn Árnason ætlar ekki að leika með Akureyri í …
Heimir Örn Árnason ætlar ekki að leika með Akureyri í vetur. Hann einbeitir sér að þjálfun liðsins og stjórn þess í leikjum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert