Sunna mikilvægust: Veit að ég þarf að taka mikla ábyrgð

Sunna Jónsdóttir í búningi BK Heid.
Sunna Jónsdóttir í búningi BK Heid. Ljósmynd/BK Heid

„Ég veit að ég þarf að taka mikla ábyrgð á þessari leiktíð,“ sagði Sunna Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik og leikmaður BK Heid í Svíþjóð, en hún var valin mikilvægasti leikmaður liðsins af tímaritinu Match fyrir komandi leiktíð í sænsku úrvalsdeildinni.

Sunna, sem er á öðru tímabili sínu með Heid, segir að stefnan sé sett á að komast í úrslitakeppnina í vetur en samkvæmt spá fyrir tímabilið mun það ekki takast.

„Við vitum að það verður erfitt að komast í úrslitakeppnina en við erum með skemmtilegt lið. Við vinnum með það sem við erum góðar í, í stað þess að einblína á það sem skortir,“ sagði Sunna við svenskhandboll.se, en hún kom til Heid eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með Fram í fyrra.

„Ég vildi komast út til að þróast sem handboltamaður. Ég var strax áhugasöm þegar Heid hafði samband. Á Íslandi hafa bara verið tvö lið (Fram og Valur) sem myndu kannski vera í 8. og 9. sæti sænsku deildarinnar,“ sagði Sunna.

„Við erum níu úr landsliðinu sem spilum utan íslands. Í Svíþjóð erum það bara við Birna (Berg Haraldsdóttir, leikmaður Sävehof). Við spiluðum saman á Íslandi og enduðum báðar í Gautaborg," sagði Sunna sem er spennt fyrir tímabilinu.

"Ég held að þetta verði jafnari deild en í fyrra. Það hafa mörg liðanna misst reynda leikmenn. Ég veit að ég fæ stórt hlutverk á tímabilinu, það er gaman og mér líður vel í þessu liði. Við höfum fengið nýja leikmenn sem hafa strax stimplað sig inn,“ sagði Sunna.

Fyrsti leikur Heid á tímabilinu er gegn VästeråsIrsta á laugardaginn, þann 20. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert