Íris: Eins og svindl að hafa hana fyrir framan sig

„Fyrri hálfleikur var jafn og skemmtilegur en síðan fóru hlutirnir að ganga upp hjá okkur í síðari hálfleik," segir Íris Björk Símonardóttir, markvörður Gróttu og landsliðsmarkvörður í handknattleik, eftir 10 marka sigur Gróttu á HK í fyrstu umferð Olís-deildar kvenna í íþróttahúsinu á Seltjarnarnesi í kvöld. 

Íris Björk átti stórleik og varði 20 skot og hreinlega lokaði marki á köflum í leiknum. 

„Ég vona að við höldum dampi út alla leiki eins og við gerðum í síðari hálfleik að þessu sinni og náum að spila okkar leik, sama hver mótherjinn er. Þá getum við náð góður úrslitum," segir Íris. 

Gróttu-liðinu er spáð mikilli velgengni á keppnistímabilinu og m.a. varð liðið í efsta sæti í árlegri spá þjálfara og fyrirliða liðanna í Olís-deildinni. Íris segir það ekkert auka pressuna á Gróttuliðinu að vera spáð efsta sætinu. „Það er fyrst og fremst heiður fyrir okkur að vera spáð efsta sætinu. Við tökum niðurstöðu spárinnar ekkert alltof alvarlega. Deildin verður örugglega jafnari og skemmtilegri en undanfarin ár því fleiri lið eru jafnari en áður," segir Íris.

íris Björk segir frábært að hafa fengið Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur til liðs við Gróttu í sumar. Hún styrki liðið mikið, ekki síst í vörninni. „Það er eiginlega bara svindl að hafa hana fyrir framan sig," segir Íris Björk Símonardóttir, markvörður Gróttu, glöð í bragði en nánar er rætt við hana á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert