Halldór: Ber miklar tilfinningar til Fram

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH-inga, sneri aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld þegar lærisveinar hans unnu fjögurra marka sigur á Fram í Safamýri, 28:24, í 2. umferð Olís-deildarinnar í handknattleik í kvöld. Halldór spilaði lengi með Fram og þjálfaði síðan kvennalið félagsins, en tók við FH í sumar.

„Ég fer sáttur héðan í kvöld. Ég átti sjö frábær ár hér hjá Fram, fyrst sem leikmaður og síðar þjálfari. Þetta er félagið sem börnin mín eru í og ég ber miklar tilfinningar til Fram, en það er mitt starf að vinna leiki hvort sem það er gegn þeim eða öðrum,“ sagði Halldór Jóhann í samtali við mbl.is eftir leikinn sem hann var í heild nokkuð sáttur við.

„Það voru kaflar þar sem við vorum ekki nógu einbeittir varnarlega og svo sóknarlega, en heilt yfir spiluðum við fínan leik gegn erfiðu liði Fram. Ég þjálfaði marga þeirra og þekki þá vel og veit að þeir gefa alltaf allt í þetta.

Við héldum dampi og vorum virkilega sterkir andlega út leikinn og sýndum mikinn styrk þar. Við gáfum allt í leikinn allan tímann eins og verður að gera,“ sagði Halldór Jóhann, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert