Kristófer: Höfum enga afsökun

„Mér fannst við eiga að vera með þetta en FH-ingar eru bara góðir og höfðu betur. En þetta er virkilega svekkjandi,“ sagði Kristófer Fannar Guðmundsson, markvörður Fram, í samtali við mbl.is eftir fjögurra marka tap liðsins gegn FH í 2. umferð Olís-deildarinnar í handknattleik í kvöld, 28:24.

Leikur Framara var nokkuð kaflaskiptur, en liðið var þremur mörkum undir í hálfleik en náði að vinna það upp áður en fór að fjara undan leik þeirra á ný.

„Við unnum upp þriggja marka forskot og svo er þetta í járnum eftir það. Við höfum enga afsökun að það hafi tekið orku að vinna þetta upp því við áttum að klára þetta. Við gerðum alltof mörg mistök,“ sagði Kristófer, sem hélt sínum mönnum hins vegar á floti í leiknum og varði 19 skot í markinu.

„Það eru auðvitað alltaf fleiri boltar sem maður vill taka, en þetta var ágætt hjá mér,“ sagði Kristófer, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert